sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

18% af loðnuafla norskra skipa landað á Íslandi

28. febrúar 2008 kl. 11:23

Norsk loðnuskip tilkynntu um löndun á tæpum 7 þúsund tonnum hér á landi á vertíðinni og eru það rúm 18% af því magni sem skipin veiddu í íslenskri lögsögu.

Loðnukvóti Norðmanna hér við land var 39.125 tonn og varð endanlegur afli bátanna, þegar veiðum lauk 15. febrúar síðastliðinn, 37.250 tonn, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Brælur töfðu norsk loðnuskip talsvert frá veiðum og töpuðu þau því dýrmætum tíma en annars gengu veiðar þeirra yfirleitt vel. Einnig fengu þau veiðitímann framlengdan um einn dag sem kunnugt er.

Ellefu norsk skip lönduðu afla sínum hér á landi á vertíðinni í 18 löndunum samanlagt 6.877 tonnum, samkvæmt tölum frá Fiskistofu. Mestu var landað í Neskaupstað, 3.120 tonnum, þar á eftir kemur Fáskrúðsfjörður með um 2.600 tonn og í Vestmannaeyjum var landað 1.160 tonnum.