mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

20% aflasamdráttur í apríl

17. maí 2010 kl. 09:34

Fiskaflinn í nýliðnum aprílmánuði nam tæplega 80.000 tonnum samanborið við rúmlega 99.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn skiptist þannig að botnfiskaflinn dróst saman um 6.000 tonn og uppsjávaraflinn um tæp 15.000 tonn.

Botnfiskaflinn nam 34.900 tonnum í mánuðum. Þar af nam þorskaflinn tæpum 12.900 tonnum, sem er samdráttur um 4.000 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 5.200 tonnum, sem er um 2.100 tonnum minni afli en í apríl 2009. Karfaaflinn dróst saman um tæp 400 tonn samanborið við apríl 2009 og nam rúmum 6.500 tonnum. Um 3.500 tonn veiddust af ufsa, sem er um 500 tonnum minni afli en í apríl 2009. Um 1.200 tonna aukning var í öðrum botnfiskafla milli ára og nam hann rúmum 6.700 tonnum. Mest aukning var þar í veiði á blálöngu og keilu.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 40.700 tonnum, sem er um 14.700 tonnum minni afli en í apríl 2009. Af uppsjávartegundum veiddist nær eingöngu kolmunni í mánuðinum, líkt og undanfarin ár.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar, HÉR