þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

20 milljónir fiskmáltíða á hverjum degi

1. júní 2015 kl. 07:51

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Sameiginlegt markaðsátak sjávarútvegsins í undirbúningi.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ætla að leggja í sameiginlega markaðs- og ímyndarherferð erlendis til að auka verðmæti og hagnað. Þetta kom fram á fyrsta aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, eins og greint var frá á RÚV

 Á fundinum, sem haldinn var á Hótel Nordica á föstudag, var fjallað um stöðu sjávarútvegsins og hvernig mætti auka hagnað og efla stöðu hans. „Sjávarútvegurinn hérna heima framleiðir sennilega um 20 milljónir máltíða á hverjum einasta degi, og bara það að hugsa aðeins virðisaukningu á hverri þessari máltíð, gerir fólki ljóst að það safnast fljótt upp stórar tölur, og það þýðir auknar tekjur og það þýðir meiri gjaldeyrissköpun, þannig að það er heilmikils virði að búa til einhvers konar vörumerki í kringum þetta,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Auka þarf verðmæti sjávarafurða ef greinin á að geta skilað meiri hagnaði. Ekki er hægt að auka hagnað með auknum veiðum. „Það að fara í svona „branding“-verkefni, hefur það að markmiði að auka virði aflans sem við veiðum og seljum. Og í dag er fiskurinn takmörkuð auðlind. Við erum ekki að fara að selja meiri fisk, hann er einfaldlega ekki til, við erum háð þessum kvóta, við erum bundin í þá skó,“ sagði Helga Thors, markaðsstjóri samtakanna.En er þörf á að bæta ímynd íslensks sjávarútvegs á Íslandi? 

Peter Souter stjórnarformaður og sköpunarstjóri TBWA/London, segist hissa á því að sjávarútvegsfyrirtæki séu ekki með vinsælustu fyrirtækum landsins. „Sem atvinnuvegur fyrir þessa þjóð með sína gjöfulu náttúru ætti hann að vera sá vinsælasti. Svarið felst í því að spyrja hvað fólki mislíkar," segir Peter. „Ég tel að til þess að vekja áhuga fólks, þurfi maður að vera sem mannlegastur.“