föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

20 milljónir vegna ólögmæts sjávarafla

15. júní 2012 kl. 11:55

Ufsi

Úrskurðarnefnd staðfestir úrskurð Fiskistofu vegna Hafnarness Ver ehf. í Þorlákshöfn.

Úrskurðarnefnd hefur staðfest úrskurð Fiskistofu um að Hafnarnes Ver ehf. í Þorlákshöfn skuli greiða rúmar 20 milljónir króna vegna ólögmæts sjávarafla. Í frétt á vef Fiskistofu eru málsatvik rakin sem hér segir: 

Þann 13. desember 2011 kvað Fiskistofa upp úrskurð í kjölfar bakreikningsrannsóknar á fyrirtækinu Hafnarnes Ver ehf. Byggði Fiskistofa niðurstöðu sína á því að fyrir hendi væri mikill óútskýrður munur á löglega vigtuðum og skráðum aðföngum fyrirtækisins og hráefni sem afurðir bakreiknaðar til hráefnismagns gáfu til kynna á tímabilinu 1. janúar 2009 til 22. mars 2010. Rannsókn Fiskistofu leiddi í ljós að óútskýrður mismunur hráefniskaupa og seldra afurða á umræddu tímabili næmi 62.695 kg af ufsa og 75.925 kg af löngu. Nam álagning gjalds vegna ólögmæts sjávarafla kr. 20.263.997.- en við álagninguna var lagt til grundvallar meðalverð viðkomandi fiskafurða á því tímabili sem um ræðir.

Að fenginni ofangreindri niðurstöðu kærði Hafnarnes Ver ehf. úrskurð Fiskistofu til úrskurðarnefndar skv. 6. gr. laga nr. 37/1992. Úrskurðarnefnd úrskurðaði í málinu 6. júní 2012 og er niðurstaða nefndarinnar sú að úrskurður Fiskistofu um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla frá 13. desember 2011 er staðfestur.“