mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

200 þúsund krónur fyrir einn þorsk!

17. janúar 2011 kl. 16:36

Þorskur á sundi.

Ef heppnin er með þeim sjómönnum í Danmörk sem skila inn endurheimtum fiskmerkjum

Þótt þorskverð sé hátt um þessar mundir á fiskmörkuðum slær tækniháskólinn í Danmörku alla út því hann er reiðubúinn til þess að greiða 10 þúsund krónur danskar fyrir stykkið af þorskinum, þ.e. ef menn detta í lukkupottinn.

Frá þessu er greint í frétt í danska sjónvarpinu. Háskólinn hefur merkt um 2.500 smáþorska í samstarfi við fiskimenn sem veiða þorsk í netagildrur við ströndina vestast í Eystrasalti.

Undanfarin ár hafa fiskimenn tekið eftir því að smáþorskur hefur aukist á svæðinu. Hins vegar vita menn ekki nógu mikið um það hvað þorskstofninn er stór og hvert þorskurinn fer þegar hann verður stærri og nær veiðanlegri stærð.

Merkingarnar eiga að leiða þetta í ljós. Þeir sem veiða merktan þorsk þurfa að skila inn merkinu ásamt upplýsingum um hvar fiskurinn veiddist og í hvaða veiðarfæri. Þá fara þeir í pott sem happdrættisvinningurinn er dreginn úr. Ef heppnin er með geta menn því fengið 10 þúsund krónur danskar fyrir einn þorsk, sem samsvarar rúmum 200 þúsund krónum íslenskum.