þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

206 hvalir hafa veiðst við Ísland í ár

3. október 2009 kl. 08:30

þar af 125 langreyðar og 81 hrefna

Alls hafa veiðst 206 hvalir hér við land frá því að veiðarnar hófust í lok júní í sumar, þar af 125 langreyðar og 81 hrefna. Stóhvalaveiðunum lauk í síðustu viku og Hrefnuveiðimenn ehf. sem veitt hafa flestar hrefnurnar eru einnig hættir veiðum.

Fimm bátar hafa veitt hrefnu í sumar og haust. Jóhanna ÁR veiddi 67 dýr, Halldór Sigurðsson ÍS sem tók við af henni á lokasprettinum veiddi tvær hrefnur, Hafsteinn SK 7 hrefnur, Sæljós GK fjórar og Sproti SH eina.

Að sögn starfsmanns Fiskistofu eru ekki tímamörk á þessum veiðum þannig að bátarnir gætu haldið áfram ef þeir kysu svo.  Þess séu dæmi að hrefna hafi veiðst í nóvembermánuði hér við land. Hins vegar er ljóst að þegar komið er fram á þennan tíma árs er allra veðra von en hrefnuveiðar þarf helst að stunda í blíðuveðri.

Á vef Félags hrefnuveiðimanna kemur fram að veiðarnar í sumar hafi gengið mjög vel og sala á hrefnukjöti aldrei meiri. Ennfremur segir að hrefnuveiðimenn hafi veiðileyfi til fimm ára og muni strax hefja undirbúning að næstu vertíð.

Hvalvertíð Hvals hf. lauk 30. september sl. þegar 125. langreyðin var skorin í hvalstöðinni. Höfðu þá 15.010 hvalir komið á land í stöðinni frá upphafi vega. Gefinn var út kvóti fyrir 150 langreyðar en þau 25 dýr sem óveidd voru bætast við kvótann á næsta ári að sögn framkvæmdastjóra Hvals hf.