mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

22 þúsund tonn af dauðri síld til viðbótar

7. febrúar 2013 kl. 18:43

Dauð síld á fjörum í Kolgrafarfirði. (Mynd af vef Skessuhorns).

Alls hafa þá 55 þúsund tonn af síld drepist í Kolgrafafirði.

Niðurstöður mælinga Hafrannsóknastofnunar benda til þess að um 22.000 tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði föstudaginn 1. febrúar. Þetta kemur til viðbótar þeim 30.000 tonnum sem drápust í firðinum í desember síðastliðnum. Áætlun Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar og Náttúrustofu Vesturlands um vöktun í firðinum liggur nú fyrir.

Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Þar segir ennfremur:

Fulltrúar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa fundað daglega frá því á þriðjudag með forstjórum og sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar þar sem farið er yfir stöðu mála, en ráðuneytin leggja ríka áherslu á að grannt sé fylgst með þróun mála í Kolgrafafirði. Að auki var fulltrúi Náttúrustofu Vesturlands á fundinum í dag. Að honum loknum var gengið frá eftirlitsáætlun stofnananna þriggja vegna ástandsins í firðinum, en ríkisstjórnin samþykkti sl. þriðjudag 6 milljóna króna fjárveitingu til hennar.

Á fundinum í dag kom m.a. fram að Hafrannsóknarstofnun hefur þegar fundað með Vegagerðinni vegna athugunar á mögulegum áhrifum þverunar fjarðarins á hegðun síldarinnar. Munu sérfræðingar í framhaldinu fara yfir þær forsendur sem lágu að baki umhverfismati framkvæmdarinnar á sínum tíma. Vatnaskipti og straumakerfi í firðinum verða sérstaklega til athugunar og hvort ástæða sé til að ætla að röskun hafi orðið á þessum þáttum við þverun fjarðarins. Mikilvægt sé að greina hugsanlegar orsakir þessara atburða.

Samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar hafa samtals um 55 þúsund tonn af síld drepist í firðinum frá því í desember. Til samanburðar má geta þess að aflamark síldar á yfirstandandi ári er 65.000 tonn. Ljóst er því að um gríðarmikið magn er að ræða.

Samkvæmt rannsóknum eru orsakir þessa mikla síldardauða súrefnisskortur. Ljóst er að ráðast þarf í ítarlegar rannsóknir svo hægt sé að meta betur orsakasamhengið og hvað veldur súrefnisskortinum.
Þá hafa sérfræðingar rætt um hugsanlegar aðgerðir til hreinsunar í firðinum sem gripið verður til ef þörf krefur en ljóst er að möguleikar til slíkra aðgerða eru takmarkaðir. Fuglum stafar helst hætta af grútarmengun í fjörum og er því mest áhersla lögð á þann þátt.
Sérfræðingar munu meta hvort hægt sé að grípa til forvarnaaðgerða til að koma í veg fyrir að atburðir sem þessir endurtaki sig en langur tími getur liðið þangað til lausn hvað það varðar liggur fyrir.