mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

2.500 tonnum aukið við strandveiðar í ár

14. júní 2011 kl. 12:46

Smábátar

Miklar breytingar voru gerðar á minna kvótafrumvarpinu í meðförum Alþingis

Minna kvótafrumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi um helgina eftir að miklar breytingar höfðu verið gerðar á því.

 Samkvæmt lögunum verður 1.900 tonnum af þorski og 600 tonnum af ufsa aukið við strandveiðarnar á þessu sumri en í þetta verða notaðar vannýttar aflaheimildir sem ætlaðar voru til línuívilnunar og byggðakvóta. Á næsta fiskveiðiári verður strandveiðipotturinn aukinn um 2.000 tonn af þorski frá því sem áður var.

 Á næsta fiskveiðiári verður 2.500 tonnum bætt við byggðakvótann en í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir 6.000 tonna aukningu.

 Samkvæmt nýju lögunum er veiðigjald hækkað um 40% en í frumvarpinu var gert ráð fyrir 70% hækkun. Þá var fallið frá þeim hugmyndum að ráðstafa hluta af veiðigjaldinu til allra sveitarfélaga og öðrum hluta eingöngu til sveitarfélaga á landsbyggðinni þar sem afla væri landað. Í stað þess var Alþingi falin ráðstöfun veiðigjaldsins.

 Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að ákveðið hlutfall af öllum úthlutuðum aflaheimildum skyldi renna til pottakerfisins, þar með taldar uppsjávarheimildir, en í lögunum kemur fram að aðrar útgerðir en þær sem eru með aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, skuli skila í pottana fjórðungi af því sem hinir láta af hendi reiknað í þorskígildum.

Því má bæta við að fallið var frá þeirri hugmynd að gera ráð fyrir 2.000 tonnum af löngu og 1.000 tonnum af keilu sem meðafla.