þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

25.000 tonn af makríl og norsk-íslenskri síld

3. október 2013 kl. 14:36

Ingunn AK (Mynd af vef HB Granda)

HB Grandi hefur lokið veiðum á þessum tegundum í ár.

Veiðum skipa HB Granda á norsk-íslenskri síld og makríl lauk formlega 23. september sl. er Lundey NS kom með síðasta farm vertíðarinnar til Vopnafjarðar. Á vertíðinni veiddust um 12.840 tonn af norsk-íslenskri síld og 12.015 tonn af makríl eða alls um 24.855 tonn.

Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, segir í samtali á vef HB Granda að þótt aflinn hafi verið með ágætum hafi vertíðin verið með öðrum brag en menn hafi átt að venjast mörg undanfarin ár.

,,Fyrir það fyrsta var veðráttan verri. Það var rysjótt tíð og þótt það hafi ekki beinlínis verið mikið um brælur þá var stöðugur kaldaskítur á miðunum. Hvað makrílinn varðar þá var meira haft fyrir veiðunum en við höfum átt að venjast. Yfirborðshiti sjávar var að jafnaði um einni gráðu lægri en undanfarin ár. Makríllinn var í smærra lagi framan af vertíðinni og sömuleiðis dreifðari og við þurftum að toga lengur og fara víðar til þess að ná sama aflamagni og á undanförnum vertíðin,“ segir Guðlaugur. 

Hann efast ekki um að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að reyna að halda makrílnum og síldinni sem mest aðskildum í einstökum veiðiferðum. Það hafi haft allt að segja fyrir vinnsluna í land.