sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

2.780 djúpkarfar merktir

19. ágúst 2008 kl. 13:10

Alls hafa verið merktir 2.780 djúpkarfar neðansjávar í fimm leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar á árunum 2003-2008, þar af 336 í leiðangri sem nú er nýlokið að því er fram kemur í frétt frá Hafró.

Í júlí sl. var farið í 10 daga leiðangur á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni þar sem karfi var merktur með neðansjávarmerkingarbúnaði. Er þetta í fimmta sinn sem slíkur leiðangur er farinn en síðast var farið í leiðangur í ágúst 2006.

Markmið rannsóknanna er að öðlast skilning á göngum karfa og segja til um tengsl úthafskarfa annars vegar og hins vegar djúpkarfa á landgrunnskanti Íslands.

Í þeim fjórum leiðöngrum sem farnir voru á árunum 2003-2006 hafa samtals 2444 djúpkarfar verið merktir. Af þeim voru um 400 djúpkarfar merktir í Skerjadjúpi og Grindarvíkurdjúpi djúpt suðvestur af landinu, tæplega 2000 úthafskarfar í úthafinu við og innan 200 mílna lögsögumörk Íslands suðvestur af landinu á allt að 800 m dýpi og rúmlega 70 úthafskarfar á alþjóðlegu hafsvæði Grænlandshafs um 200 sjómílur suður af Hvarfi.

Hingað til hafa 44 karfar endurheimst og flestir í námunda við merkingarstað. Þó sýna niðurstöður talsvert far karfa og hefur t.d. karfi sem merktur var í Grindarvíkurdjúpi endurheimst bæði austur og vestur af landinu. Einn karfi sem merktur var á úthafskarfaslóð við Reykjaneshrygg endurheimtist á landgrunnskantinum vestur af landinu.

Í ár var markmiðið að merkja karfa við svokallaða “karfalínu” um 150 sjómílum vestur af Faxaflóa og aðskilur veiðistofna úthafskarfa og djúpkarfa innan íslensku lögsögunnar.

Tilgangur merkinganna er að reyna að leita svara við hvert karfinn er að fara sem er að koma upp með Reykjaneshryggnum. Gekk merkingin vel og voru alls 336 karfar merktir, þar af 15 með rafeindamerkjum. Leiðangursstjóri var Kristján Kristinsson og skipstjóri var Guðmundur Bjarnason