laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

34 milljarðar í þróunarstyrki

20. janúar 2016 kl. 14:18

Bátar á Írlandi.

Írskur sjávarútvegur og fiskeldi fá myndarlega innspýtingu.

Það er ekki ofsögum sagt af miklum styrkveitingum til sjávarútvegs í ríkjum Evrópusambandsins. Nýlega tilkynnti sjávarútvegs- og fiskeldisráðherra Írlands að verja ætti 240 milljónum evra eða sem svarar 34 milljörðum íslenskra króna á næstu sex árum til sjávarútvegs og fiskeldis þar í landi. Þetta eru tvöfalt meiri fjármunir en hingað til hefur verið veitt til hliðstæðra verkefna. Féð kemur að stærstum hluta úr þróunarsjóði ESB til sjávarútvegsmála en írska ríkið leggur einnig peninga í púkkið.

Þessu verkefni er ætlað að styrkja sjávarútveginn og fiskeldið og auðvelda aðlögun að nýrri sjávarútvegsstefnu ESB. Meðal annars verður fé varið í að aðlaga stærð fiskiskipaflotans að afrakstursgetu fiskistofnanna og stuðla að nauðsynlegri endurnýjun á tækjum og búnaði á sjó og í landi.  

Frá þessu er skýrt á vefnum seafoodsource.com.