þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

40 milljarðar í rannsóknastyrki til norsks sjávarútvegs

14. október 2013 kl. 14:20

Tölvumynd af nýja rannsóknaskipinu

6 milljarðar í smíði nýs rannsóknaskips

Á árinu 2104 verður varið alls tveimur milljörðum norskra króna í rannsóknir og þróun innan norsks sjávarútvegs, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins norska. Hér er um að ræða sem samsvarar um 40 milljörðum íslenskra króna.

Mjög margar stofnanir og margskonar verkefni fá sneið af kökunni, misstóra þó. Um 300 milljónum (6 milljörðum ISK) verður varið í nýtt rannsóknaskip sem verður sérstaklega styrkt til siglinga í ís.

Af öðrum verkefnum má nefna að norska hafrannsóknastofnunin fær 4 milljónir aukalega til að rannsaka laxalús og finna varnir gegn henni í norsku laxeldi.

Önnur stofnun fær 5 milljónir króna til að fylgjast með nýjum villtum fiskstofnum sem kynnu að rata í norska lögsögu.

Nofima rannsóknastofnunin fær 10 milljónir til að efla þorskiðnaðinn.

Þá á að setja aðrar 14 milljónir í að auka verðmætasköpun í þorskvinnslu.

Um 10 milljónir renna til aðila sem rannsaka lífríki sjávar í Barentshafi, svo nokkur dæmi séu tekin um styrki og verkefni í þróun og rannsóknum á sviði sjávarútvegs í Noregi.