þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

500 fyrirtæki frá 33 löndum

3. október 2008 kl. 12:58

Íslenska sjávarútvegssýningin 2008 var opnuð í Smáranum í Kópavogi í gær.

Um 500 fyrirtæki frá 33 löndum taka þátt í sýningunni að þessu sinni og er þátttaka erlendis frá meiri en nokkru sinni fyrr, að sögn skipuleggjenda hennar. Sýningin stendur í þrjá daga þannig að henni lýkur á morgun, laugardag.

Sjávarútvegssýningin er ekki eingöngu markaðstorg fyrir hvers kyns tækjabúnað, vöru og þjónustu, þótt það sé auðvitað megintilgangur hennar, heldur er hún einnig allsherjar samkoma þeirra sem í greininni.

Ákveðnum fulltrúum ýmissa erlendra sjávarútvegsfyrirtækja var nú í fyrsta sinn boðið á sýninguna en þeir koma frá Kanada, Ástralíu, Rússlandi, Indlandi, Noregi, Tyrklandi, Suður-Afríku, Belgíu, Færeyjum og Hollandi.

Þá má nefna að Noregur, Danmörk, Færeyjar, Bretland og Spánn eru með sérstaka þjóðarbása og hefur þátttaka Norðmanna tvöfaldast frá síðustu sýningu.

Þetta er í níunda sinn sem Íslenska sjávarútvegssýningin er haldin en hún hefur verið fastur viðburður á þriggja ára fresti allt frá árinu 1984. Breska fyrirtækið Mercator Media er nú eigandi sýningarinnar.

Sýningin verður opin í dag föstudag klukkan 10-18 og á laugardag kl. 10-16.