laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

56 þúsund laxar sluppu

7. febrúar 2018 kl. 16:00

Laxeldi er í mikilli sókn á Íslandi og er jafnframt umdeilt.

Nærri sexfalt meira magn af eldislaxi slapp úr kvíum í Noregi á mánudag en allt árið í fyrra.

Á mánudaginn sluppu 54 til 56 þúsund laxar úr einni af eldiskvíum stórfyrirtækisins Marine Harvest í sveitarfélaginu Nærøy í Noregi. Þetta er nærri sex sinnum meira magn en slapp úr eldiskvíum í Noregi allt árið í fyrra. 

Á síðasta ári töldu Norðmenn sig hafa náð býsna góðum árangri við að draga úr slysasleppingum eldislaxa, og höfðu með margvíslegum aðgerðum náð fjöldanum niður í tíu þúsund laxa.

Laxinn er sagður hafa sloppið út um gat sem kom á eldiskví þegar verið var að vinna við hana. Allir eru þeir um tvö kíló að þyngd, en alls voru 180 þúsund laxar í eldiskvínni sem skemmdist.

Reynt verður að ná laxinum aftur úr sjónum og hefur fyrirtækið boðist til að greiða almenningi 300 norskar krónur fyrir hvern lax sem veiðist. Sú fjárhæð samsvarar nærri fjögur þúsund íslenskum krónum.

Ekki er leyfilegt að selja þennan lax sem fæðu þar sem honum hafði verið gefið ormalyf. Þó segja norsk yfirvöld óhætt að snæða fiskinn.

Marine Harvest er stærsta laxeldisfyrirtæki heims, með yfirburðastöðu í laxeldi í Noregi og umfangsmikla starfsemi víða um heim.