fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

564 slys í fiskvinnslu á þremur árum

14. janúar 2016 kl. 14:00

Vinnueftirlitið með átak í öryggismálum

Árin 2013-2015 urðu 564 slys í fiskvinnslu hér á landi sem er aukning frá fyrri árum. Þessi tala gæti þó átt eftir að hækka þegar allar slysatilkynningar hafa borist Vinnueftirlitinu vegna ársins 2015. Forsvarsmenn eftirlitsstofnana, fiskvinnslunnar og tryggingafélaga hafa áhyggjur af þróuninni.

Helstu orsakavaldar vinnuslysa í fiskvinnslu er handverkfæri, eins og t.d. hnífar. Nálægt 130 slys af þessu tagi voru tilkynnt 2013-2015. Tæplega 120 slys mátti rekja beint til vinnusvæðis og rétt rúmlega 100 slys vegna iðnaðarvéla.

Í heimsókn Vinnueftirlitsins til 109 fiskvinnslufyrirtækja á árinu 2013 kom í ljós að víða er pottur brotinn í öryggismálum. Í fjölda fyrirtækja skorti öryggishlífar á tæki, færibönd opin, víða voru opnir öxlar og öxulendar, ástandi og umgengni við fiskikör var verulega ábótavant og frystiklefar uppfylltu ekki öryggiskröfur.

Vinnueftirlitið hyggst beita harðari aðgerðum en hingað til í þeim tilgangi að færa öryggismál til betri vegar innan fiskvinnslunnar.

Sjá nánar í Öryggi í sjávarútvegi, fylgiblaði Fiskifrétta.