þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

65 milljónir í einu kasti

18. ágúst 2015 kl. 10:24

Fékk 800 tonn af Norðursjávarsíld í einu kasti.

Norska skipið Libas fékk 800 tonn af síld í Norðursjónum á þrem tímum

Libas, eitt stærsta uppsjávarskip Norðmannam, fékk 800 tonn af síld í einu kasti á dögunum. Síldin veiddist í Norðursjónum, um 80 sjómílur austur af Skotlandi. Frá þessu er sagt á vefnum sysla.no.

Skipstjórinn á Libas segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þeir taki stór köst í síld en það heyri þó til undantekninga að fá jafn góðan afla í einu kasti við sumarveiðar. „Við erum ekki óvanir því að þurfa að kasta tíu sinnum til þess að fá sama magn á þessum tíma,“ segir hann.

Síldin var seld hæstbjóðanda í Skagen í Danmörk og fengust fjórar milljónir norskar fyrir aflann (65 milljónir ISK). Meðalverðið var 4,86 til 5 krónur á kílóið (78 til 80 ISK) en í fyrra var meðalverðið 3,03 krónur (49 ISK).

Þeir á Libas höfðu gert ráð fyrir því að eina til tvær vikur tæki að klára kvóta skipsins í norðursjávarsíld en þeir kláruðu kvótann í þessu eina kasti. Þeir voru nýkomnir á miðin og höfðu aðeins þriggja tíma viðdvöl Þar. Áhöfnin fær nú vikufrí aukalega áður en makrílveiðar hefjast í september.