miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

80 dýr skráð á um 90 árum

Guðsteinn Bjarnason
26. október 2019 kl. 13:00

Hákarl kom í rannsóknarafla á Gnúpi í haustralli. MYND/Jón Sólmundsson

Hákarlinn er tegund sem ekki hefur verið rannsökuð í þaula

Hákarl kemur sjaldan í rannsóknarafla Hafrannsóknastofnunar en þetta árið eru þó þrír komnir, þar af einn ungi sem er sjaldgæfur fundur

„Við erum með eitthvað um 80 dýr skráð á um 90 árum. Hann er tiltölulega óalgengur afli í rannsóknaleiðöngrum okkar“ segir Klara Björg Jakobsdóttir, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Þetta árið hljóp þó á snærið hjá hákarlafræðingum því að í haustralli sem nú stendur yfir hafa þrír hákarlar nú þegar komið í aflann hjá togaranum Gnúpi.

„Einn af þeim er ungi sem er sjaldgæfur fundur,“ segir Klara.

Klara hefur einbeitt sér að rannsóknum á brjóskfiskum og djúpfiskum utan ráðgjafar, og þar undir fellur Grænlandshákarlinn, sem hér á landi er almennt nefndur bara hákarl. Hún segir fáar rannsóknir hafa verið stundaðar á hákarli hér við land.

„Það er ekki fyrr en á seinni tímum sem við höfum farið að safna líffræðilegum upplýsingum eins og lengdarmælingum, kyn- og kynþroskagreiningum, erfðasýnum og skráningu á magainnihaldi. En við erum að fá u.þ.b eitt dýr kannski á tveggja ára fresti og helst í haustralli. Við erum smám saman að safna upplýsingum í sarpinn sem hægt verður að nota til að skilja líffræði þessarar tegundar betur.“

Langlífur

Hákarlinn er kaldsjávartegund sem getur leitað í mikið dýpi. Talið er að hann geti orðið afar langlífur, jafnvel nokkur hundruð ára gamall. Fyrir nokkrum árum birti danskur sjávarlíffræðingur niðurstöður úr aldursgreiningu á nokkrum hákörlum, og taldi hann að sá elsti hafi verið á bilinu 272 til 512 ára gamall.

Klara hefur þó ákveðnar efasemdir um þessar niðurstöður

„Þetta voru mjög merkilegar rannsóknir og þetta var tímamótagrein að mörgu leyti. Hann var svo sniðugur að nýta sér tilrauna kjarnorkusprengingar sem áttu sér stað í Kyrrahafi fyrir um 50, 60 árum. Geislavirkni frá þessum sprengum skildu eftir merki í augasteini sem gerði það mögulegt að staðsetja dýrin í tíma og ákvarða aldur út frá þeim upplýsingum. Þetta aldursmat er mjög ónákvæmt og gæti skeikað hundruðum ára.“

Torvelt að aldursgreina

Hins vegar hafa aðrar aðferðir til að aldursgreina hákarla reynst ógerlegar.

„Hákarlarnir eru ekki með kvarnir eins og beinfiskarnir. Í sumum öðrum tegundum brjóskfiska eins og háf,svartháf eða dökkháf er hægt að sneiða hryggjarliði eða jafnvel þverskera gadda í bakugga séu þeir til staðar í viðkomandi tegund.Líkt og í kvörnum beinfiska má þá sjá vaxtarhringi sem nýta má til aldursákvörðunar.Þetta hefur hins vegar reynst ógerlegt hákarli.

Klara segir að hákarlar séu ekki taldir ferðast langar leiðir um hafið, þótt þeir fari djúpt.

„Merkingar með gervihnattasendi benda þó til þess að eitthvað far sé á þeim, kannski ekki heimsálfa á milli en frekar út á úthafið á mikið dýpi. Þangað fari þeir jafnvel til að hrygna eða koma upp ungum, en leiti í fæðu upp á grynnri slóðir.“

Lítið er vitað um lífshætti hákarlsins, fjölskyldutengsl eða samskipti dýranna innbyrðis. Líkt og aðrir háfar gjóta hákarlar lifandi afkvæmum. Þá sjaldan sem „hákerling“ kemur í troll eru það annað hvort ungdýr sem aldrei hefur gotið, eða þá að goti loknu að gjótagotnar. „Ég held að við höfum aldrei rekist á þær,“ segir Klara.