þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

84% hærra verð á gullkarfaflökum

Guðjón Guðmundsson
9. mars 2020 kl. 07:00

Óskar Sigmundsson, eigandi Marós (fjórði frá vinstri), með samstarfsmönnum á Fish International sýningunni í Bremen.

Fjögurra ára starfsafmæli Marós í Cuxhaven

Fyrirtækið Marós GmbH í Cuxhaven, sem er í eigu Óskars Sigmundssonar frá Vestmannaeyjum, fagnaði fjögurra ára starfsamæli í febrúar. Marós tók þátt í sjávarútvegssýningunni Fish International í Bremen í þriðja sinn og búið að koma sér vel fyrir á markaðnum fyrir dreifingu á frystum fiskafurðum í Evrópu.

Rekstur Marós hefur gengið mjög vel og viðtökur á markaðnum verið góðar. Fyrirtækið veltir tæpum 5 milljörðum og var söluaukningin fyrstu tvo mánuði ársins 37% og  44%.  Fyrirtækið selur fjölbreytt úrval tegunda  og mest inn á „food service“ geirann. Frá upphafi hefur mikil áhersla verið lögð á gullkarfa frá Íslandi. Til gamans má geta þess að verðið á frystum gullkarfaflökum er nú um 84% hærra en fyrir 4 árum þegar fyrirtækið var stofnað.

 24% hærra verð en á öðrum karfa

„Fyrirtækið selur gullkarfa til smásölu og er sú afurð seld á 24% hærra verði  en annar frosinn íslenskur karfi. Í veitingageiranum seljum við gullkarfa frá Íslandi í dag á nánast þreföldu verði tvífrystra karfaflaka úr Kyrrahafinu þannig að eitthvað virðumst við hafa verið að gera rétt undanfarin ár og á ég þá ekki bara við Marós heldur þau fyrirtæki sem eru að selja gullkarfaflök inn á þýska markaðinn.“

Eins og greint var frá í Tímariti Fiskifrétta í nóvember á síðasta ári hefur Marós lagt áherslu létt kolefnisfótspor og hráefnisgæði í markaðssetningu sinni sem hefur skilað þessu góða árangri ásamt skýrri upprunatengingu vörunnar. Gullkarfinn sem Marós selur er í samkeppni við mjög ódýran kyrrahafskarfa. Sá fiskur er seldur á innan við 3 evrur kílóið en Marós hefur fengið 7 evrur og meira fyrir kílóið.

„Ég vil alls ekki gera mikið úr mínum hlut í þessari þróun og jákvæðu breytingum en þær sýna samt greinilega hvernig hægt er að auka virðisaukann með markvissri vinnu og samstilltu átaki,“ segir Óskar.

Miklu þarf að kosta til

Óskar benti jafnframt á í viðtali við Fiskifréttir að Íslendingar mættu standa sameiginlega betur að því að upplýsa neytendur um upprunann og sérstöðu fisks frá Íslandi. Miklu þurfi að kosta til og það sé ekki á færi lítils fyrirtækis. Að hans mati mætti leggja enn meiri áherslu á þennan þátt í markaðsstarfi á Íslandi. Margir hafi t.d. bent á það sem Norðmenn hafi gert með skrei þar sem þeir með góðri sögu og markaðssetningu hafi búið til vörumerki og eftirspurn eftir þorski sem var áður seldur eins og allur annar þorskur.  Nú sé þessi þorskur seldur sem skrei m.a. á bestu veitingastöðum á mun hærra verði en annar þorskur. Sama ætti að geta legið fyrir okkur Íslendinga að gera með okkar sjávarafurðir – sérstaklega með gullkarfann.