sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

850 þúsund tonn mældust af íslensku sumargotssíldinn

4. apríl 2008 kl. 14:50

Um 850 þúsund tonn mældust af íslensku sumargotssíldinni í vetur, þar af 700 þúsund tonn í Kiðeyjarsundi í Breiðafirði og 70 þúsund tonn í Grundarfirði. Einnig mældist síld í Kolluálnum og í minna mæli á svæðum fyrir austan land, að því er Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, sagði í samtali við nýjustu Fiskifréttir.   Þorsteinn sagði að mælingin sýndi að síldarstofninn væri í góðu ástandi og að svipaðri stærð og kom fram í mælingum árið á undan.

Vísitölur um stærð árganganna eins og þeir mældust í leiðangrinum verða notaðar til samstillingar með aldursgreindum afla, og nú er unnið að þeim reikningum. Því er of snemmt að segja til um stærð veiðistofnsins fyrr en að loknum þeim útreikningum.   Fyrri hluta desember síðastliðinn tók Hafrannsóknastofnunin um tuttugu tonna bát, Sprota SH, á leigu til að mæla síldina í Breiðafirði, bæði í Grundarfirði og Kiðeyjarsundi. Ekki var hægt að nota skip Hafrannsóknastofnunar til mælinga inni í Breiðafirði þar sem síldin hélt sig bæði grunnt og inni á skerjasvæði.        Fram kom hjá Þorsteini að mikið flakk hefði verið á síldinni í vetur en hún hefði þó aðallega haldið sig inni í Grundarfirði og á svæðinu við Kiðeyjarsund. ,,Við vissum að síldin hafði gengið út úr Grundarfirði þegar mælingar fóru fram. Við fórum aftur af stað um miðjan febrúar og þá voru mæld 600 þúsund tonn inni í Grundarfirði.“