fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

9,5% af þorskkvótanum fara í sérúthlutanir

8. júlí 2011 kl. 14:07

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

5.600 tonn af þorski fara í byggðakvóta, 3.400 tonn í línuívilnun og 6.800 tonn í strandveiðar

Tæp 17 þúsund tonn af þorski fara í sérúthlutanir á næsta fiskveiðiári eða um 9,5% af heildarkvóta þorsks, samkvæmt nýrri reglugerð sem sjávarútvegsráðherra hefur gefið út um veiðar í atvinnuskyni. Um 8% af ýsukvótanum fara í sérúthlutanir, 7,2% af ufsakvótanum og 9,5% af steinbítnum.

Í reglugerðinni er kveðið á um úthlutun heildarkvóta, sem áður hefur verið ákveðinn, á grundvelli aflahlutdeildar og lögum og reglum um sérúthlutanir. Ennfremur er þar að finna þau ákvæði sem gilda m.a. um framsal, veiðiskyldu og þau skilyrði sem sett eru handhöfum veiðileyfa.

Leyfilegur heildarafli í þorski er 177 þúsund tonn miðað við óslægðan afla. Úthlutað verður um 160 þúsund tonnum samkvæmt aflahlutdeild en tæp 17 þúsund tonn fara í sérúthlutanir, eða um 9,5% af heildinni. Þar á meðal fara um 5.600 tonn í byggðakvóta, tæp 3.400 tonn í línuívilnun og um 1.600 tonn í skel- og rækjubætur. Mestu munar þó um strandveiðar en til þeirra renna 6.800 tonn.

Leyfilegur heildarafli er 45 þúsund tonn í ýsu. Úthlutað verður um 42 þúsund tonnum samkvæmt aflahlutdeild en um 3 þúsund tonn fara í sérúthlutanir, eða 8% af heild. 2.100 tonn fara í línuívilnun og tæp 800 tonn í byggðakvóta.

Leyfilegur heildarafli í ufsa er 52 þúsund tonn en rúmum 48 þúsund tonnum er úthlutað samkvæmt aflahlutdeild. Um 3.700 tonn fara í sérúthlutanir, eða 7,2% af heild. Þar á meðal 1.800 tonn í strandveiðar og 1.400 tonn í byggðakvóta.