fimmtudagur, 2. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

980 þús. tonn af síld mældust í lögsögunni

21. maí 2010 kl. 15:27

Nú í vikunni lauk árlegum leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar á R/S Árna Friðrikssyni með það að markmiði að kanna útbreiðslu og magn kolmunna og norsk-íslenskrar síldar fyrir vestan, sunnan og austan land, ásamt umhverfismælingum. Leiðangurinn er hluti af sameiginlegri leit og bergmálsmælingum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Evrópusambandsins á útbreiðslusvæði þessara stofna, og eru niðurstöðurnar notaðar við mat á stærð stofnanna.

Í byrjun leiðangursins var útbreiðsla kolmunna könnuð með landgrunnskantinum fyrir suðvestan og sunnan land og fannst aðeins lítilsháttar kolmunni á þessu svæði. Við Íslands-Færeyjarhrygginn fannst nokkurt magn af kolmunna en þó mun minna en undanfarin ár.

Útbreiðsla síldarinnar var svipuð og í maí síðustu tveggja ára á syðri hluta svæðisins fyrir Austurlandi. Hins vegar var nokkuð minna af síld nú á norðurhluta svæðisins. Alls mældust 980 þús. tonn innan íslensku landhelginnar nú í samanburði við 1,4 milljón tonna tvö árin á undan. Líkt og á síðasta ári var síldin jafndreifðari og með minni þéttleika en árin tvö þar á undan.

Ástæðan fyrir því að minna mælist nú í íslensku lögsögunni er líklegast að hluta til tengt því að elstu og stærstu síldinni, sem er að miklu leyti úr stóru árgöngunum frá 1998 til 2000, fer fækkandi í stofninum. Þessi síld hefur einmitt mest leitað hingað undanfarin ár í fæðuleit. Hiti yfirborðslaga í Austur-Íslandsstraumi var lægri nú en árið 2009 og kaldur sjór, sem ávallt finnst úti af Austfjörðum í mismiklum mæli, fannst sunnar og austar nú en í fyrra. Nær ekkert sást af síld í köldu tungunni eða vestan við hana.

Alþjóðahafrannsóknarráðið metur hrygningarstofn norsk-íslenskrar síldar nú vera 13,4 milljón tonna og er aflamark Íslendinga 215 þúsund tonn fyrir árið 2010 samkvæmt núgildandi samkomulagi milli ríkjanna sem nýta stofninn. Niðurstöður nýafstaðins leiðangurs verða, ásamt öðrum gögnum, notaðar við endurmat á stærð stofnsins og munu verða kynntar í október. Leiðangursstjórar voru Sveinn Sveinbjörnsson og Guðmundur J. Óskarsson, skipstjórar Guðmundur Bjarnason og Kristján Finnsson.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.

» til baka

» prentaLeit• •Um vefinn• •Sendu okkur línu• •in English• Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 5