þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

99% norskra sjómanna ánægðir í starfi

23. júní 2015 kl. 09:44

Reine, Noregur.

Sjómennska er eigi að síður talin hættulegasta starfið í Noregi.

Í skoðunarkönnun sem gerð var meðal starfandi sjómanna í Noregi sögðust 99% þeirra ánægðir í starfi. Alls tóku 832 þátt í könnuninni. Í frétt á vefnum forskning.no segir að þetta mjög svo jákvæða viðhorf næstum allra sem spurðir voru hafi komið á óvart, en persónuleg viðtöl við sjómenn styðji einnig þessa niðurstöðu. 

En hvers vegna eru sjómenn svona ánægðir í starfi? Um 35% sjómannanna setja félagsskapinn um borð í efsta sæti en í öðru sæti er óskin um að starfa sjálfstætt. Þá má nefna að næstum 80% svarenda sögðust geta mælt með sjómennskunni við aðra. 

Sjómennska er talin hættulegasta starf í Noregi. Vinnuslys eru hvergi tíðari en til sjós. Að auki þjást margir sjómenn af sliti í vöðvum og stoðkerfi. Þrátt fyrir það segjast 70% svarenda að þeir séu við góða heilsu. Fjarvera vegna veikinda í stuttan tíma er nánast óþekkt meðal sjómanna í Noregi. Annað hvort eru þeir alvarlega veikir eða slasaðir eða þeir eru á sjónum. Ef sjómaður framvísar veikindavottorði frá lækni er hann yfirleitt fjarverandi í átta vikur eða lengur.