sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

99 skip nú bókuð til Faxaflóahafna

1. júní 2021 kl. 15:01

Celebrity Eclipse

Eins og í fyrra breytist bókunarstaða skemmtiferðaskipa hratt vegna heimsfaraldursins.

Bókaðar skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna breytast hratt. Í byrjun janúar voru 198 skipakomur á bókum Faxaflóahafna með um 217 þúsund farþega. Bókunarstaðan byggði á væntingum skipafélaganna.

Nú eru áætlaðar 99 skipakomur með 71 þúsund farþega.

Þetta kemur fram á heimasíðu Faxaflóahafna en skipakomur byggja enn á væntingum og getur margt breyst fram að hausti. Rauntölur ársins 2020 voru allt aðrar en áætlaðar tölur, það ár voru aðeins sjö skipakomur farþegaskipa með 1.346 farþega.

„Árið í ár virðist hins vegar líta betur út en árið 2020. Eitt er þó hægt að segja með vissu, þ.e. að stóru farþegaskipin með yfir 2000 farþega eru ekki að koma. Viking útgerðin er eina útgerðin sem við vitum að svo stöddu að verði með fjölmennar skipakomur (930 farþegar). Megnið af skipakomum verða svokölluð leiðangursskip sem eru með í kringum 200 farþega. Farþegar koma þá í gegnum Keflavíkurflug og fylgja því sóttvarnarreglum sem við eiga á hverjum tíma. Farið verður að öllu leiti eftir fyrirmælum frá Landlækni og Almannavörnum, engar undantekningar eru gerðar,“ segir í frétt Faxaflóahafna sem á von á fleiri skipakomum til Akraness en áður.

Bókunarstaða fyrir árið 2022 er mjög góð og lítur út fyrir að það ár verði metár hvaða varðar skipakomur og farþegafjölda ef allt gengur eftir, segir í fréttinni.