föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á góðri leið með að klóna þorsk

12. október 2009 kl. 15:00

Eftir margra ára vinnu eru norskir vísindamenn nú á góðri leið með að klóna þorsk, að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum. Vísindamennirnir staðhæfa að eftir tvær nýjar kynslóðir geti þeir framleitt klónaðan þorsk.

Rannsóknin er unnin á vegum norsku hafrannsóknastofnunarinnar og háskólans í Tromsö. Í ár tókst að framleiða seiði sem hefur aðeins erfðaefni frá hrygnunni en venju samkvæmt hefur þorskur erfðaefni að hálfu frá hæng og að hálfu frá hrygnu. Til þess að teljast klónaður þarf fiskurinn að hafa 100% sömu litninga og það er næsta skrefið í þróuninni.

Þar sem klónaðir fiskar hafa allir sama erfðaefni gefur það vísindamönnum einstakt tækifæri til að rannsaka hvaða hlutverki hin ýmsu gen þjóna og hvaða áhrif mismunanandi meðhöndlun hefur. Klónaður fiskur getur því haft mikla þýðingu þegar finna á lausn á ýmsum vandmálum í þorskeldi varðandi sýkingu og þol gegn sníkjudýrum.