sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áætla 300 milljónir í humarrannsóknir á sex árum

23. október 2020 kl. 17:00

Rannsóknir á humarstofningum eru aðkallandi en staða hans er bág. Aðsend mynd

Hafrannsóknastofnun svarar Ingu Sæland fyrir hönd ráðherra.

Hafrannsóknastofnun telur ekki óvarlegt að áætla að um 50 milljónir króna hafi að jafnaði verið varið til humarrannsókna á árunum 2015–2020, eða 300 milljónum á þessu sex ára tímabili.

Þær rannsóknir eru m.a. mat á stofnstærð humars í þeim tilgangi að veita stjórnvöldum ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu stofnsins, rannsóknir á kjörhæfni humarvörpu og rannsókn á at­ferli humars með hlust­un­ar­dufl­um frá því í sumar.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn þingkonunnar Ingu Sæland til sjávarútvegsráðherra.

Tekið er fram í svarinu að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar beinast æ meira að vistkerfum fremur en einstökum tegundum og eru rannsóknirnar skipulagðar á þann veg. Því er nokkrum annmörkum háð að svara spurningum um kostnað vegna rannsókna á einstakri tegund eða tegundum. Þá séu rannsóknaleiðangrar oft margþættir þar sem ýmsum ólíkum rannsóknum er sinnt með það að markmiði að tryggja sem besta notkun þess fjármagns sem stofnun hefur yfir að ráða.

Sem dæmi fara stofnmælingar botnfiska fram í þremur leiðöngrum ásamt rannsóknum á öðrum þáttum vistkerfisins. Erfitt er að áætla þar kostnað á hverja tegund. Auk þess fara fram rannsóknir á þeim í öðrum leiðöngrum eins og rannsóknaleiðöngrum á rækju og á lífríki strandsjávar.