mánudagur, 13. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Að ljúka 33 ára ferli sem hafnarstjóri

Guðjón Guðmundsson
5. júní 2020 kl. 09:00

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir hafnir víða á landinu glíma við svipaðan vanda. Gísli lætur af störfum næstkomandi haust eftir 15 farsæl ár hjá fyrirtækinu.

Útlit er fyrir að með minnkandi vöruflutningum og fækkun farþegaskipa sem koma til landsins verði allt að fjórðungs tekjusamdráttur hjá Faxaflóahöfnum á þessu ári. Þetta þýðir að tekjurnar gætu dregist saman um hátt í einn milljarð króna. Verulegur samdráttur er í inn- og útflutningi, aflagjöld hafa dregist saman og ekki er útlit fyrir að skemmtiferðaskip komi til landsins. 

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir hafnir víða á landinu glíma við svipaðan vanda. Gísli lætur af störfum næstkomandi haust eftir 15 farsæl ár hjá fyrirtækinu. 

Segja má að bjart hafi verið yfir hjá Gísla í starfi hafnarstjóra Faxaflóahafna fyrstu þrjú árin. Haustið 2008 reið hrunið mikla yfir með gríðarlegum tekjusamdrætti og skuldaaukningu hvarvetna í samfélaginu. Gísli segir það hafa verið gæfu Faxaflóahafna að fyrirtækið var skuldlétt þegar ósköpin gengu yfir. Faxaflóahafnir og áður Reykjavíkurhöfn hafa ætíð þurft að standa á eigin fótum og því hafa framkvæmdir sem hefur verið ráðist í ávallt verið fjármagnaðar fyrir eigið fé. 

Tekjutap í hundruðum milljóna

Ekki er þó tekjusamdrátturinn nú allur Covid-19 að kenna. Gísli segir að samdráttur í inn- og útflutningi hafi gert vart við sig síðla árs 2019. Það var á allra vitorði að um þetta leyti var niðursveifla í kortunum og blikur á lofti í efnahagsmálum. Meðal annars fækkaði ferðamönnum í kjölfar falls WOW og órói var á vinnumarkaði. Skellurinn varð hins vegar hálfu verri í byrjun marsmánaðar þegar þjóðir heims brugðust við alheimsfaraldrinum með því að skella í lás. Landamæri lokuðust og miklar hömlur voru á fólks- og vöruflutningum til og frá landinu. Heildartekjur Faxaflóahafna á síðasta ári voru um 4 milljarðar króna. Gísli segir að samdrátturinn á þessu ári í vöruflutningum sé um 15 – 20% af heildartekjum. Þá gera Faxaflóahafnir ekki ráð fyrir komum skemmtiferðaskipa á þessu ári. Þessu til viðbótar hafa aflagjöld í kjölfar heimsfaraldursins dregist verulega saman. Margt hafi breyst í útgerð og dregið úr umsvifum útgerðarfyrirtækja við Reykjavíkurhöfn. Tekjutap Faxaflóahafna vegna þessa hleypur á hundruðum milljóna króna en ekki er útséð hver þróunin verður næstu mánuði og misseri. 

Hafnarstjóri í 33 ár

Þannig virðist sem tímarnir séu að endurtaka sig í tíð Gísla sem hafnarstjóra án þess að nokkur fái rönd við reist vegna utanaðkomandi atburða. Ferill Gísla sem hafnarstjóri nær reyndar til lengri tíma. Hann starfaði sem lögmaður á árunum 1981-1985, en tók þá við starfi bæjarritara á Akranesi. Hann var ráðinn bæjarstjóri á Akranesi árið 1987 og gegndi því starfi til loka árs 2005. Meðfram skyldum sínum sem bæjarstjóri var hann einnig hafnarstjóri á Akranesi og síðar Grundartangahafnar. Þannig spannar ferillinn sem hafnarstjóri 33 ár. 

Viðfangsefnin hafa verið af ýmsum toga í tíð Gísla og í mörg horn að líta því hafnirnar eru fjórar. Hafnarfyrirtækið Faxaflóahafnir sf. var stofnað 1. janúar 2005. Það á og rekur Reykjavíkurhöfn, Grundartangahöfn, Akraneshöfn og Borgarneshöfn. Fyrirtækið er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar. Mikil uppbygging hefur orðið í Sundahöfn. Þar er risinn nýr stórskipakantur og nýr viðlegukantur á Skarfabakka þar sem stóru skemmtiferðaskipin hafa lagt að bakka. Í Gömlu höfninni hefur orðið talsverð þróun m.a. í hafsækinni ferðaþjónustu í Suðurbugt. Þar voru verbúðirnar við Geirsgötu endurnýjaðar og iða nú af lífi.  Í Vesturbugt hafa göngubryggjur risið m.a. í tengslum við Sjóminjasafnið sem Faxaflóahafnir studdu myndarlega.  Í Örfirisey hefur athafnalíf og mannlíf tekið breytingum m.a. eftir að hluti verbúðanna við Grandagarð var breytt í verslun og þjónustu. Ennfremur var Bakkaskemma endurnýjuð til að taka á móti starfsemi Sjávarklasans.  

Sérstaða Gömlu hafnarinnar

„Sjávarklasinn er afar vel heppnað verkefni sem á vafalaust eftir að sanna enn frekar gildi sitt.  Þrátt fyrir breytingar í Örfirisey er aðstaða útgerðaraðila í Vesturhöfninni góð. Þar er Brim með öfluga starfsemi auk þess sem þar er fiskmarkaður.  Vissulega hefur aukin umferð og breytingar í umhverfi borgarinnar áhrif á starfsemina en einnig hafa orðið miklar breytingar í útgerð og fiskvinnslu. Meginverkefnið hefur verið að halda góðri stöðu í útgerð og fiskvinnslu. Bent hefur verið á að Gamla höfnin sé um margt sérstæð þegar horft er til höfuðborgarhafna í Evrópu.  Gamla höfnin státar af því að vera í hópi þeirra hafna þar sem virk útgerð og fiskvinnsla er til staðar. Allt  byggir þetta á atvinnumenningu Íslendinga sem mikilvægt er að varðveita. Í bland við hafsækna ferðaþjónustu, almenna þjónustu við skip, útgerð, fiskvinnslu og menningu er höfnin skemmtilegur suðupottur ólíkra þátta, þar sem atvinnulífið þrífst í sambúð við aðgengi almennings,“ segir Gísli. 

„Á Grundartanga hafa öflug þjónustufyrirtæki haslað sér völl en þar er stóriðjan kjölfestan í starfseminni.  Áfram er unnið að þróun verkefna sem vonandi verða að veruleika og auka fjöldbreytni starfseminnar á Grundartanga.  Á Akranesi hefur hins vegar ekki tekist að halda í þá útgerðarstarfsemi sem þar var en enn er talsverð útgerð smábáta sem landa þar um 2.000 tonnum af fiski árlega. Þar er einnig flutt inn sement og áburður. Akraneshöfn á vafalaust möguleika í framtíðinni m.a. í smábátaútgerð og ferðaþjónustu.“

Stór verkefni framundan

Gísli segir að á síðustu árum hafi umhverfis- og öryggismál verið mikilvægur þáttur í starfsemi Faxaflóahafna. Faxaflóahafnir státi nú af umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi og jafnlaunavottun fyrst íslenskra hafna.  Frá árinu 2007 hafi verið haldið grænt bókhald auk þess sem um nokkurra ára skeið hafi verið fylgst með gerlamagni á hafnarsvæðunum.  Að auki hafi verið unnar skýrslur síðustu ár um útblástur skipa og nú er unnið að undirbúningi landtenginga flutningaskipa í Sundahöfn. Umhverfismálin muni,  eins og síðustu ár, skipta miklu máli í þróun og rekstri Faxaflóahafna.

„Stór verkefni eru framundan og fyrirtækið á að vera vel í stakk búið að glíma við þau.  Hafinn er undirbúningur að landgerði í Vatnagörðum með lengingu Skarfabakka að Kleppsbakka.  Þá er verið að undirbúa dýpkun utan Sundabakka til að tryggja öryggi nýrrar kynslóðar, stækkandi flutningaskipa.  Á Akranesi er í undirbúningi endurnýjun á fremsta hluta aðalhafnargarðsins og lítlsháttar lengingu hans. Það mun opna færi á að fá minni farþegaskip til Akraness. Loks má nefna verkefni á vegum Þróunarfélags Grundartanga sem eru í undirbúningi. Vonandi verður eitthvert þeirra verkefna að veruleika á Grundartanga.

Faxaflóahafnir munu um ókomin ár verða mikilvægasta sjóflutningagátt landsins og þróast áfram sem slík.  Hafnarsvæði fyrirtækisins hafa hvert sína sérstöðu og mörg tækifæri eru til þróunar á hverju þeirra.  Þótt á móti blási nú þá sýndi það sig í kreppunni árið 2008 að öll él birtir um síðir og í viðspyrnu og endurnýjuðum þrótti efnahagslífsins þá skipta hafnarsvæðin miklu máli.  Öflug hafnarstarfsemi skiptir nefnilega miklu máli fyrir samfélagið í heild og ekki síst fyrir þau byggðarlög sem standa að Faxaflóahöfnum,“ segir Gísli.