þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðgerðaáætlun klár komi til smits í vinnslu eða skipum

Guðjón Guðmundsson
19. mars 2020 kl. 08:00

Björn Halldórsson, öryggisstjóri Þorbjarnar. Mynd/gugu

Sjávarútvegsfyrirtæki vinna myrkrana á milli til að verja sig gegn Covid - 19.

„Við erum þakklát fyrir að búa á litla Íslandi þar sem upplýsingastreymið er hratt og öruggt,“ segir Björn Halldórsson, öryggisstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík. Hann og aðgerðarteymi Þorbjarnar vinnur myrkranna á milli við að skipuleggja starfsemina með tilliti til ógnarinnar af Covid-19 vírusnum. Björn er jafnframt formaður hóps öryggisstjóra sjávarútvegsfyrirtækja innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann segir fyrirtækin hiklaust miðla öryggisupplýsingum sín á milli enda ekki litið á þau sem viðskiptaleyndarmál.

 Björn segir verkefnið nú ekki síst fólgið í því að upplýsa starfsfólk með reglubundnum og skipulegum hætti. Heimasíða Landlæknisembættisins sé kannski ekki fyrsta heimsókn sjómanna og landvinnslufólks á degi hverjum og lítur fyrirtækið á það sem skyldu sína að halda starfsmönnum vel upplýstum.

„Við stofnuðum það sem við köllum aðgerðaráð hérna innan Þorbjarnar. Það fundar einu sinni á dag og miðlar sín á milli nýjustu upplýsingum. Þeim upplýsingum komum við til allra starfsmanna í gegnum skipstjórnarmenn og verkstjóra í landi. Við höfum líka aðgang að læknum sem starfa fyrir fyrirtækið sem hafa beinni tengingu við Sóttvarnalækni. Það teljum við vera ómetanlegt samstarf,“ segir Björn.

Starfsmenn innlyksa erlendis

Fyrirtækið er þessi dægrin að greiða úr þeirri flækju sem starfsmenn Þorbjarnar sem eru erlendis eru flæktir í. Víða er búið að loka landamærum og flugleiðum. Þarna er um að ræða fólk sem á að mæta til vinnu og vill koma til vinnu en er í þeim aðstæðum að komast hvorki lönd né strönd.

„Einnig þurfum við að glíma við margvísleg persónuleg vandamál sem okkur hefði ekki órað fyrir að við gætum staðið frammi fyrir einungis fyrir örfáum dögum síðan. Það eru fimm einstaklingar núna sem eru í erfiðri stöðu erlendis. Þeir hafa áhyggjur af afkomu sinni og jafnvel skipsplássum. En við fullvissum starfsmenn um það að enginn missir vinnuna í þessum aðstæðum. Við leysum þessi mál en jafnframt höfum við gefið það út að þeir sem kjósa að ferðast til svæða sem eru skilgreind sem hættusvæði, eftir að leiðbeiningar um það hafa verið gefnar út hjá Landlækni, gera það á eigin ábyrgð. Við verðum öll að sýna samfélagslega ábyrgð. Það er enginn eyland í þessum efnum. Skipverji á línuskipi er með fjórtán öðrum skipverjum og á frystiskipi eru aðrir 25 skipverjar sem geta smitast af einum smituðum einstaklingi. Starfsmenn hafa sýnt þessu mikinn skilning og verið samvinnufúsir. Það virðist reyndar vera andinn í samfélaginu almennt.“

Björn segir að það hafi verið gert mikið átak í öryggismálum sjómanna og fiskvinnslunnar hjá Þorbirni á undanförnum árum og það eigi einnig almennt við um önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Þorbjörn búi að því núna hve föstum tökum öryggismálin hafi verið tekin.

„Það er komin á opin og sterk öryggismenning. Nú eru starfsmenn ekki einungis að hugsa á þann hátt að koma sjálfum sér heilir heim heldur einnig öðrum. Það hefur verið mikil og skemmtileg vinna sem hefur skilað okkur á þennan stað.“

Björn segir mikið samtal eiga sér stað milli sjávarútvegsfyrirtækja um öryggismál og nálgun þeirra gagnvart Covid-19 og jafnvel út fyrir greinina. Fyrirtækin læri hvert af öðru.

Hópar aðskildir

Reglur um samkomubann yfir 100 manna sem settar voru á af heilbrigðisráðuneytinu fyrir helgi hefur óneitanlega áhrif á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Þorbjörn rekur þrjú landvinnsluhús í Grindavík. Ekkert þeirra er með yfir 100 starfsmenn og af þeirri ástæðu verður farið eftir þeirri reglu að starfsmenn haldi tveggja metra fjarlægð sín á milli.

„Við þurfum að gæta að því að starfshóparnir fari ekki á sama tíma til að matast eða í kaffihlé. Hópunum er skipt upp í minni hópa þegar þeir þrífa sig við vaskana fyrir og eftir vakt. Verkstjórarnir stýra umferðinni og þar er mjög vel að verki staðið. Við höfum fengið úr því skorið hjá Matvælastofnun að veiran lifir ekki í matvælum. Ef það kemur upp smit hjá starfsmanni í landvinnslu þá megum við þrífa og sótthreinsa og skipta út þeim tiltekna hóp sem hinn sýkti tilheyrði. Að því búnu megum við halda vinnslunni áfram. Þess vegna er nauðsynlegt að skipta upp í smærri hópa og halda hópunum vel aðskildum. Við erum jafnvel að velta fyrir okkur þeim möguleika að halda starfsfólki í vinnu einungis annan hvern dag. Við erum að hugsa hlutina fram í tímann en ekki farnir að framkvæma þá alla. Við erum að reyna að sjá fyrir þessa þróun áður en hún raungerist,“ segir Björn.

Sóttkví í skipum

Það yrði gripið til sérstakra aðgerða ef smit kæmi upp í skipum Þorbjarnar. Samneyti skipverja er náið. Samkvæmt leiðbeiningum Landhelgisgæslunnar hefur Þorbjörn dregið upp aðgerðaráætlun komi til þess að sýktur einstaklingur sé talinn vera um borð í skipi. Hann verður settur í sóttkví í skipinu þar sem hann hefur einn aðgang að snyrtiaðstöðu. Honum verður færður allur matur á einnota diskum sem hann borðar með einnota hnífapörum. Einungis einn úr áhöfninni fær það hlutverk að sinna þörfum þess smitaða. Hann fer síðan undir læknishendur þegar skipið snýr til hafnar sem leiðbeinir í samræmi við tilmæli frá Sóttvarnalækni um næstu skref.

„Við vitum það ekki eins og staðan er í dag, hvort skipta þurfi út allri áhöfninni. Við höfum leitað svara við því en þau hafa ekki borist enn. Það er ekki hægt að búast við því að svörin berist okkur á venjulegum hraða, álagið er svo mikið á heilbrigðisstéttina. Við útbjuggum stuttan spurningalista sem allir starfsmenn, allt frá forstjóra og alveg niður, þurfa að svara, skrifa undir og endurnýja vikulega. Einnig eru verktakar sem vinna fyrir Þorbjörn beðnir um að svara sömu spurningum. Spurt er hvort viðkomandi hafi verið á skilgreindu hættusvæði eða verið í samneyti við einstakling sem hefur staðfest smit. Haldið er utan um þetta rafrænt á skrifstofu Þorbjarnar og viðkomandi þarf öllum stundum hafa afrit af yfirlýsingunni á sér. Bregðist það er viðkomandi vísað frá borði,“ segir Björn.