sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðstöðuleysið í Vestmannaeyjum farið að há fyrirtækjum

4. júní 2018 kl. 12:30

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. MYND/GUGU

60 skemmtiferðaskip boðað komu sína í sumar

Lóðaleysi við Vestmannaeyjahöfn er farin að setja sjávarútvegsfyrirtækjum þar í bæ takmarkanir hvað vöxt varðar og mikil þörf er fyrir frekar uppbyggingu stórskipahafnar og gámavalla vegna mikilla umsvifa í útflutningi. Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjarbæjar, segir tekjur hafnarinnar mjög háðar gangi uppsjávarveiða.

gugu@fiskifrettir.is

Talsverðar framkvæmdir voru við Friðarhöfn þegar blaðamaður var á staðnum. Búið var að malbika hluta Strandvegar og Friðarhafnar og til stendur að færa veginn nær Klifinu. Þannig myndast stærra athafnasvæði á Friðarhöfn og hefur Goodthaab í Nöf verið úthlutað lóð þar fyrir fiskvinnsluhús.

Á síðasta ári voru á þriðja hundrað hafnsöguskyldar skipakomu. Í hverri viku koma tvö gámaskip frá Eimskip og Samskipum og í sumar verða um 60 skemmtiferðaskip sem leggjast að í höfninni. Það er fjölgun frá því í fyrrasumar og nú þegar hafa verið bókuð yfir 70 skip sumarið 2019. Þessi til viðbótar er umferð af mjölskipum, frystiskipum, lýsisskipum og olíuskipum sem flest hver eru hafnsöguskyld. Menn hafa látið vel af hinni tiltölulega nýju og náttúrugerðu innsiglingu en vandamálið eru frekar þrengsli innan hafnar til að snúa og færa til stærri skip. Stærstu skipin sem tekin eru inn í höfnina eru um 140 m löng.

Háð kvótaúthlutunum

„Við erum stærsta höfn landsins án álvers. Faxaflóahafnir bera höfuð og herðar yfir aðra og Fjarðarbyggð byggir jafnt á allri útgerðinni og svo álverinu í Reyðarfirði. Í Hafnarfirði er mikill inn- og útflutningur út af álverinu í Straumsvík meðal annars. Í veltutölum hefur Vestmannaeyjahöfn verið á svipuðu róli og Hafnarfjörður og verið fjórða til fimmta stærsta höfnin á landinu síðustu árin.“

Velta hafnarinnar á síðasta ári var 460 milljónir króna en stærsta veltuárið var 2016 þegar veltan fór í 505 milljónir. Það sem stýrir tekjunum mest er verðmæti afla því tekjupóstarnir eru aðallega aflagjöld af lönduðum afla og vörugjöld af sjávarafurðum. Aflagjaldið er 1,38% er sá póstur hátt í þriðjungur af heildartekjum hafnarinnar. Höfnin er líka með háð kvótaúthlutunum því verði hrun í uppsjávarveiðum á einni eða annarri tegund kemur það strax illa niður á tekjum hafnarinnar.

Stærstu verkefnin dag frá degi er að koma fiskiskipaflotanum fyrir til löndunar og ekki síður að koma skemmtiferðaskipunum fyrir.

Stórskipahöfn og gámavöllur

„Draumurinn er sá að hér rísi stórskipahöfn þar sem allt að 250 metra gáma- og skemmtiferðaskip geta lagst að. Hugmyndin er að hún rísi norðan við Eiðið. Þar yrði byggður garður og innan hans yrði viðlegukantur. Jafnframt yrði landfylling við Eiðið sem yrði nýtt sem gámavöllur. Það er ekki eingöngu bryggjuplássið sjálft sem er uppurið hjá okkur heldur líka allt athafnasvæði í kringum bryggjurnar. Fyrirtækin þurfa meira pláss og við eigum ekki eftir einn einasta landskika á hafnarsvæðinu. Tilhneigingin hjá fyrirtækjunum er að stækka en plássleysið setur þeim takmarkanir í þeim efnum,“ segir Ólafur.

Áætlanir Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar er að frysta til samans um 1.300 tonn af uppsjávarfiski á sólarhring. Það þarf því gríðarlegt pláss til að geyma allt þetta magn. Með stórskipahöfn og gámavelli við Eiðið væri hægt að losa þann landskika þar sem gámavöllurinn er núna, þ.e.a.s. við Binnakantinn.

„Svo er einnig verið að skoða aðra lausn varðandi skemmtiferðaskipin og það er að reisa viðlegukant í Skarðsfjöru við innsiglinguna. Þetta er framkvæmd upp á um 300 milljónir króna en á árinu 2011 var það mat manna að stórskipahöfn og gámavöllur við Eiðið myndi kosta 3,7-4,2 milljarðar króna. Fyrir höfn sem veltir 450 milljónum króna þá er þetta stór biti,“ segir Ólafur.

Hugmyndir um uppbyggingu á Eiðinu hafa ekki verið slegnar út af borðinu og leita menn leiða til þess að nálgast verkefnið.