sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ælir út úr sér líffærunum

Guðsteinn Bjarnason
15. júlí 2018 kl. 12:00

Stefanía Inga Sigurðardóttir sinnir rannsóknum hjá Iceprotein á Sauðarkróki. MYND/Iceprotein

Líftæknifyrirtækið Iceprotein á Skagafirði er að gera rannsóknir á sáragræðandi eiginleikum sæbjúgans. Vonast er til að þessir eiginleikar nýtist í einhvers konar krem eða gel til að bera á sár.

„Þetta eru mjög furðulegar lífverur,“ segir Stefanía Inga Sigurðardóttir hjá Iceprotein á Sauðárkróki um sæbjúgu. Fyrirtækið fékk í vetur styrk frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra til að rannsaka sáragræðandi eiginleika sæbjúgans, en þeir eiginleikar gætu hugsanlega nýst til þess að búa til sáragræðandi gel eða krem af einhverju tagi.

„Þegar sæbjúgað verður pirrað úti í náttúrunni, ef eitthvað er að áreita það, þá ælir það líffærunum út úr sér. Síðan treður það þeim aftur inn í sig, og þetta getur engin lífvera gert nema að hafa gott sótthreinsikerfi inni í sér.“

Iceprotein er líftæknifyrirtæki sem hefur getið sér gott orð fyrir þróun ýmissa fæðubótarefna sem unnin eru úr hráefni sem fellur til við fiskvinnslu og hefði áður fyrr verið hent sem úrgangur. Fæðubótarefnin eru framleidd af systurfyrirtæki Iceprotein sem heitir Protis en bæði fyrirtkækin eru í eigu FISK Seafood á Sauðárkróki og gegna þar lykilhlutverki við að fullvinna alla afurðina.

Nú er athyglinni beint að sæbjúganu, en Íslendingar hafa á síðustu árum veitt sæbjúga í nokkrum mæli til útflutnings, einkum inn á kínverskan markað.

Stefanía segir áhuginn á sáragræðandi eiginleikum sæbjúgans hafa kviknað þegar ein starfskona fyrirtækisins fór að lesa sér til.

Notað á sár í Asíu
„Hún var búin að lesa helling um sæbjúgu og var búin að finna það út að í Asíu nota þeir sæbjúgu á sár. Ef einhver slasast alvarlega er reynt að finna sæbjúga, það skorið og opnað og lagt á sárið,“ segir Stefanía.

“Við vitum að það er rosa mikið af alls konar fitusýrum í sæbjúga sem eiga að hafa sáragræðandi eiginleika. Þannig að það er spurning hvort hægt er að búa til eitthvað einfalt extract úr þessu, gel eða krem eða eitthvað.“

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veittu Iceprotein 1,6 milljón króna í síðustu úthlutun, sem var í febrúar síðastliðinum, gagngert til að kanna þetta. Stefanía segir verkefnið hafa gengið vel en nú sé beðið niðurstaðna úr rannsókn á frostþurrkuðum sýnum sem send voru úr landi til frekari skoðunar. Þeirra niðurstaðna er að vænta í lok ágúst.

„Við þurfum að fá fitusýruprófílinn og amínósýruprófílinn og vita hvað er mikið af hvaða efnum. Við skoðum síðan þessi efni í frumumódelum og þá getum við reynt að finna út hvort það var feitari hlutinn í sýninu eða prótínhlutinn í sýninu sem hefur meiri áhrif á frumurnar.“

Enn er því óljóst hvaða efni í sæbjúganu hafa þessa sáragræðandi eiginleika og hvort hægt sé að nýta þau efni. Starfsfólk Iceproteins hefur prófað ýmsar aðferðir, bæði þá hefðbundnu sem felst í að sjóða sæbjúgað og frysta, en einnig hafa þau skoðað hvort vinnsluvatnið sem fellur til geti nýst til að vinna úr því þessi eftirsóttu efni.

Vatnið verður slímugt
„Kannski eru þessi efni að falla út í suðunni, við vitum það ekki,“ segir Stefanía. „En sæbjúganu er líka haldið lifandi alveg þangað til það kemur í land. Það er þá geymt í sjó og vatnið sem það er geymt í það verður líka rosalega slímugt. Hún er alltaf að seyta einhverju út. Við erum þannig að prófa að skoða sjálft vatnið því það verður allt slímugt og ógeðslegt.“

Aðrar aðferðir hafa einnig verið reyndar við að ná hinum sáragræðandi efnum út úr sæbjúganu.

„Svo höfum við líka prófað að sleppa því að sjóða sæbjúgað og berum þá saman hvort við eru að tapa einhverjum efnum með því að sjóða það. Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort mögulega verði hægt að frostþurrka sæbjúgað frekar en að sjóða það. Það verður kannski framtíðin. Það vöknuðu dálítið margar spurningar þegar við byrjuðum á þessu verkefni, en þetta gengur allt hægt og örugglega.“

Fyrirtækið Iceprotein var stofnað fyrir rúmum áratug og hefur þróað vörur úr fiskprótíni undir merkinu PROTIS® FISKPRÓTÍN. Fyrir nokkrum vikum hóf Protis framleiðslu á kollageni úr þorskroði.

Byrjuð á kollagenframleiðslu
„Það er í raun bara partur af þessum hugmyndum okkar að nýta allt sem til fellur við fiskvinnsluna,“ segir dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceproteins og Protis. „Við erum náttúrlega búin að þróa þennan feril með prótínið og þá lá þetta beint við í framhaldinu. Framleiðsla kollagens úr roði er mjög vel þekkt þannig að við erum svo sem ekki að finn upp neitt nýtt.“

Hún segir að bæði roðið sjálft og líka afskurðurinn sé nýttur í kollagenframleiðsluna

„Þegar við fáum afskurðinn þá er oft roð á honum. Þegar við búum til marninginn sem er fyrsta skref í prótínvinnslunni þá falla til tvær hliðarafurðir, það eru bein og roð,“ segir Hólmfríður og útskýrir þetta ferli nánar: „Afskurðinum er í raun bara þrýst í gegnum sigti þannig að kjötið fer í gegn en roð og bein verða eftir.“

Úr þessu er síðan gert kollagenduft sem sett er í hylki rétt eins og prótínvörurnar. Hólmfríður segir kollagenið hafa fengið mjög góðar viðtökur, rétt eins og aðrar vörur fyrirtækisins.

„Það hafa allir verið til í að taka þetta inn í verslanir og apótek.“

Vörurnar frá Protis eru nú til sölu á 230 útsölustöðum á Íslandi. Útflutningur er næsta skref og Protis hlaut nýlega styrk frá AVS gagngert til þess að undirbúa útflutning.