sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla að knýja farþegaskip sín áfram á fiskislógi

svavar hávarðsson
3. desember 2018 kl. 15:40

Einn af viðkomustöðum Hurtigruten er Stykkishólmur, hvar þessi mynd er tekin. Mynd/Sumarliði Ásgeirsson

Sex af sautján skipum Hurtigruten eiga að nýta græna orku.

Norska skipafélagið Hurtigruten hefur tilkynnt að innan þriggja ára muni ekki færri en sex af sautján farþegaskipum félagsins verða knúin með lífrænu eldsneyti.

Frá þessu segir meðal annarra miðla, fréttasíðan The Fish Site, sem í viðtölum við forsvarsmenn Hurtigruten fá það staðfest að félagið ætli ekki síst að nýta lífdísil sem unninn verður úr úrgangi frá norsku laxeldi. Lífdísill er einmitt framleiddur úr jurtaolíu, dýrafitu og fiskiúrgangi.

Orkulausnir

Hurtigruten er eitt elsta skipafélag heims og hefur í langan tíma boðið strandsiglingar í Noregi, auk þess sem skip félagsins sigla á norðlægum slóðum; til Íslands, Grænlands og um norður íshafið.

Hurtigruten hefur áður vakið mikla athygli fyrir að bjóða ferðir á skipum sínum þar sem farþegarnir eru skyldugir til að tína rusl þar sem þeir koma – en slíkar „plokkferðir“ reyndust mun vinsælli en reiknað var með í byrjun.

Hugmyndin nú er að hætta bruna á olíu á skipum félagsins eins og kostur er, en eins og Fiskifréttir hafa fjallað ítarlega um er mengun frá hverju farþegaskipi gríðarleg.

En það er ekki aðeins lífdísill sem litið er til sem lausnar af forsvarsmönnum Hurtigruten. Til greina kemur að nýta einnig gas og rafmagn, eins mikið og tæknilausnir leyfa. Allt snýst málið um að nota náttúrulegar orkulausnir á skipum félagsins og það strax árið 2021.

Drifin af náttúrunni

The Fish Site hefur eftir Daniel Sjeldam, háttsetts stjórnanda Hurtigruten, að margir samkeppnisaðilar skipafélagsins hafi í hyggju að nýta olíu áfram, á þeim forsendum að um ódýrasta kostinn sé að ræða. „Okkar skip verða hins vegar drifin áfram af náttúrunni í orðsins fyllstu merkingu. Við veljum hreinasta eldsneytið sem fæst til siglinga, og er mjög til góða fyrir umhverfið. Við myndum auðvitað vilja sjá önnur skipafélög fara að fordæmi okkar.“

Skjeldam bætir við að lönd á norðlægum slóðum, ekki síst Noregur séu í einstakri stöðu til framleiðslu á grænu eldsneyti, og kemur þá til sögunnar öflugur sjávarútvegur og fiskveiðar. Það komi hráefni til framleiðslunnar í svo miklu magni að möguleikarnir séu í raun endalausir – og sé vilji fyrir hendi geti þessi lönd tekið forystu í framleiðslu á vistvænu eldsneyti.

Sæta gagnrýni

Þrátt fyrir þessa sýn forsvarsmanna Hurtigruten þá hefur fyrirtækið verið gagnrýnt hérlendis, en eins og greint var frá í sumar þá skipulagði félagið landtökur á viðkvæmum stöðum hér á landi – að öllum forspurðum. Þar á meðal Hornströndum. Um er að ræða svokölluð leiðangursskip sem Hurtigruten stefnir hingað til lands á hverju sumri, nú orðið.

Í frétt Rúv um málið á sínum tíma kom fram að árið 2012 er vitað um sjö slíkar ferðir í kringum landið, 50 ferðir sumarið 2017, og þær voru líklega rúmlega 60 í ár. Leiðangurskipin stoppa í fleiri höfnum og í minni bæjum en stóru farþegaskipin sem hingað koma, en einnig utan hafna.