föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla að tvöfalda verðmætin á 10 árum

15. janúar 2020 kl. 13:15

Engin þjóð kaupir eða neytir meira af sjávarfangi en Kínverjar - gríðarlegir möguleikar eru því á kínverska markaðnum fyrir stórar fiskveiðiþjóðir. Mynd/EPA

Metár í útflutningi Norðmanna á sjávarfangi í fyrra.

Verðmætaaukning norsks sjávarfangs var hvergi meiri en á mörkuðum í Asíu á nýliðnu ári. Norðmenn fluttu út 2,7 milljónir tonna að verðmæti 107 milljarða norskra króna – eða rúmlega 1.500 milljarða íslenskra króna – sem eru mestu verðmæti útflutnings þeirra á sjávarfangi til þessa.

IntraFish greinir frá því að Norðmenn seldu 506.000 tonn til Asíulanda árið 2019 sem er sex prósentum meira í tonnum talið en árið á undan en verðmæti þess útflutnings var hins vegar 21 prósentum meiri. Innan Asíu er það kínverski markaðurinn sem vex hraðast og verðmætin í viðskiptum landanna skiluðu Norðmönnum 40 prósent hækkun í verðmætum. Varð Kína á árinu 2019 sjöunda stærsta viðskiptaland Norðmanna með sjávarfang.

Helmingurinn til ESB

Rúmlega helmingur útflutnings Norðmanna var seldur til Evrópusambandslanda, eða 1,6 milljónir tonna. Það eru aðeins færri tonn en árið 2018 sem skiluðu þó meiri verðmætum. Árið 2018 fylgdi því þróun síðustu ára þar sem seld tonn af sjávarfangi eru eilítið færri sem seljast á mun betra verði en fyrr.

Lönd Austur Evrópu eru Norðmönnum mikilvægur markaður og verðmæti selds sjávarfangs til þeirra landa hækkaði um heil nítján prósent. Hlutverk Póllands þarf að skoðast sérstaklega en ekkert land flytur inn meira magn frá Noregi. Það er þó komið til vegna þess að þar í landi fer mikið af sjávarfangi til fullvinnslu og þaðan til annarra markaða Norðmanna um allan heim.

Það er Danmörk sem er annað stærsta innflutningsland norsks sjávarfangs á eftir Póllandi, og þar var það sama uppi á teningnum; verðmæti innflutningsins gaf átta prósentum meira í aðra hönd Norðmanna en árið 2018.

Helmingi meira

Í viðtali IntraFish við forstjóra Norska sjávarafurðaráðsins (Norges sjømatråd) er því velt upp hvort takmark Norðmanna um að tvöfalda verðmæti á seldu sjávarfangi frá landinu á næstu tíu árum segir Renate Larsen að yngra fólk sæki sífellt meira í sjálfbært sjávarfang. Þetta kristallist í umræðunni um hamfarahlýnun, umhverfi og heilsu. Yngra fólk á flestum lykilmörkuðum Norðmanna sé því tilbúið að borga fyrir vöru sem sannarlega er unnin með sjálfbærum hætti.

Takmarkið er, segir Renate, að koma norskum sjávarafurðum í þá stöðu að vera litnar þeim augum að vera besti kosturinn í samhengi sjálfbærni, hreinleika og gæða. Takist það sýni útreikningar Sjávarafurðaráðsins að ekkert sé því til fyrirstöðu að tvöfalda útflutningsverðmæti norsks sjávarfangs á næsta áratug.