fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla ekki að segja Smugusamningnum upp

2. júlí 2014 kl. 14:00

Norskt loðnuskip kemur til hafnar á Íslandi. (Mynd: Óðinn Magnason).

Norsk stjórnvöld hafna óskum samtaka norskra útvegsmanna í þá veru.

Smugusamningur Íslands og Noregs rennur út í lok þessa árs og endurnýjast þá sjálfkrafa til næstu fjögurra ára, ef annað hvort ríkið segir honum ekki upp. 

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að segja samningnum ekki upp gagnstætt því sem samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåt) hafa eindregið farið fram á. 

Í tilkynningu norska sjávarútvegsráðuneytisins vegna málsins segir m.a. að samningar við önnur ríki um uppsjávartegundir hafi verið erfiðir á undanförnum árum. Ýmsir þættir í fiskveiðisamningum Noregs við önnur ríki séu óuppgerðir og ekki sé fýsilegt að auka á óvissuna í þeim efnum.

Norsk stjórnvöld muni halda áfram leitast við að bæta stöðu norskra loðnuskipa við Ísland innan ramma núverandi samnings og hafi nú síðast 24. júní tekið málið upp á fundi með íslenska sjávarútvegsráðherranum. Einnig hafi norsk stjórnvöld haft frumkvæði að því að haldinn verði þriggja landa fundur Grænlands, Íslands og Noregs í haust. 

Á vef samtaka norskra útvegsmanna segir að samtökin harmi þá ákvörðun stjórnvalda að segja Smugusamningnum ekki upp. Eins og nú sé háttað fái Ísland miklu meiri kvótaverðmæti í norskri lögsögu en þau láti af hendi í íslenskri lögsögu. Að auki sé norskum skipum  settar takmarkanir á loðnuveiðum við Ísland en íslensk skip sæti engri tilsvarandi mismunun í norskri lögsögu.