mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla sér helming af 10 milljarða markaði

Guðjón Guðmundsson
2. febrúar 2019 kl. 12:00

Ekkó toghlerarnir voru prófaðir í Helgu Maríu RE.

Framleiðsla er hafin á Ekkó toghlerum

Ný gerð toghlera hefur verið í prófunum undanfarin  sex ár og hefur notkun þeirra haft í för með sér umtalsverðan olíusparnað og skilvirkari veiðar. Um er að ræða svokallaða Ekkó hlera sem hafa verið í notkun í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni og togurum HB Granda og Bergs-Hugins, Helgu Maríu RE og Vestmannaey VE. Ekkó toghlerar  ætlar sér stóra hluti á alþjóðlegum markaði með nýju hlerana.

Smári Jósafatsson, hönnuður Ekkó toghleranna og framkvæmdastjóri Nýrrar toghlerahönnunar ehf., segir lausnina felast í lögun hleranna. Hann byrjaði að vinna í hugmyndinni haustið 2012. Útfærslan hafði blundað lengi í honum og hreinlega ekki látið hann í friði. Hann kemur af mikilli toghleraætt og vann lengi með föður sínum Jósafati Hinrikssyni við smíði og markaðssetningu toghlera.

Markmiðið með Ekkó hlerunum er að hægt sé að veiða meira með minni tilkostnaði og meira öryggi fyrir sjómenn. Hannaðir og smíðaðir hafa verið semi-botnhlerar, miðsjávarhlerar og flotttrollshlerar með þessu lagi. Hlerarnir eru holir að innan og fyllast af sjó við veiðar.

Dreginn á 15 -25° horni

„Flestir hefðu haldið að þeir myndu þyngjast þegar þeir fyllast af sjó. En hin eðlisfræðilega staðreynd er sú að áhrifin eru engin til þyngingar,“ segir Smári. Hlerarnir hafa verið prófaðir í tönkum í Kanada og Danmörku og þar hefur reynt á óvenjulega lögun þeirra sem Smári segir að stýri hreyfingum þeirra. Lögun hleranna stuðlar að svonefndum Bernoulli áhrifum sem valda því að sjórinn stýrir þeim út en með minna viðnámi en í hefðbundnum toghlerum sem eru þvingaðir til að skvera.

Smári segir að aðrir toghlerar séu með fleiri og lengri „spoilerum“ sem þvingi hleranna út. Þeir eru yfirleitt dregnir á 35 og allt upp í 40 gráðu horni. Ekkó hlerinn er dreginn á 15-25 gráðu horni sem veldur mun minna viðnámi.

„Ég teiknaði fyrsta hlerann árið 2012 og fór í tank í fyrsta sinn 2015. Síðan hef ég farið fjórum sinnum með fjölda hleramódela í tanka. Í framhaldinu fékk ég verkfræðistofuna Verkís til þess að gera straumhermiprófanir. Tilgangurinn var að prófa nokkrar ólíkar útfærslur af hleranum en eftir 50 slíkar prófanir hjá Verkís kom í ljós að besta útfærslan var sú sem ég teiknaði í upphafi.“

Tölur sem ekki hafa sést áður

Það er ekki fyrr en nú sem framleiðsla er að hefjast á hlerunum og segir Smári ástæðuna þá að hann vildi klára hönnun, smíðalausnir og allar prófanir áður en til þess kæmi. Vorið 2016 var Ekkó hlerapar prófað á Bjarna Sæmundssyni.  upp frá því hefur það hlerapar  verið notað í öllum uppsjávarveiðum skipsins.

Sem fyrr segir voru framkvæmdar 50 prófanir hjá Verkís og tekur hver prófun einn til tvo sólarhringa í ofurtölvum í Evrópu. Prófanirnar á síðasta ári leiddu í ljós að hægt var að bæta staðsetningar og halla á „spoiler“ hleranna. Smári smíðaði ný hleramódel þar sem þessar niðurstöður voru hafðar að leiðarljósi og prófaði hann í tankinum í Hirtshals í Danmörku. Gildin sem koma út úr þeim prófunum er formúlan C L/C d (lift coefficient/ drag). Það þykir mjög gott að ná útkomunni 3 C L/C d en því hærra sem gildið er því meira er liftið og viðnámið minna.. Prófanir á Ekkó hlerunum í Hirtshals leiddu í ljós 5,4 C L/C d sem eru tölur sem ekki hafa áður sést á toghlerum, að sögn Smára.

Styrkur HB Granda skipti sköpum

Ekkó hlerar hefur sótt um fjögur einkaleyfi fyrir uppfinningunni sem nær til margra landa. Smári stóð sjálfur straum af kostnaði við hönnunarferlið á fyrstu stigum en hlaut síðar styrk frá Rannís og AVS og  Horizon 2020 styrk frá Evrópusambandinu sem nýtist til þess að undirbúa umsókn fyrir stærri styrk. HB Grandi styrkti hann einnig myndarlega sem fleytti honum yfir erfiðasta hjallann og hratt verkefninu vel af stað í prófunum.

Nú hafa innlendir fjárfestar gengið til liðs við hann og stofnað hefur verið einkahlutafélagið Ný toghlerahönnun ehf. Stefna félagsins var að fara ekki á markað með Ekkó hlerana fyrr en þeir eru fullkomlega tilbúnir. Í dag er Ekkó hlerarnir tilbúnir fyrir markaðinn og sala hafin.

Markaðurinn fyrir toghlera í Norður-Atlantshafi er talinn velta um 5 milljörðum króna á ári en séu Bandaríkin, Kanada og öll Evrópa talin með, þar með talið Rússland, veltir markaðurinn um 10 milljörðum króna. Smári segir að hlutirnir gerist hratt í öllu í tengslum við fiskveiðar. Komi fram á sjónarsviðið nýjungar sem leiða til hagkvæmari fiskveiða séu fyrirtæki fljót að tileinka sér þær.  Það er staðföst stefna fyrirtækisins að ná 50% hlutdeild í þessum 10 milljarða króna markaði í Norður-Atlantshafi og 25% hlutdeild af heimsmarkaðnum

Raunhæf markmið

„Ég er alveg viss um að það sé raunhæft. Ástæðan er sú að það hafa aldrei áður komið fram á sjónarsviðið toghlerar sem stuðla að svo miklum olíusparnaði. En það hefur margoft gerst að toghleraframleiðendur hafa fullyrt að þeir hafi hannað slíka hlera, en það hefur ekki staðist. Ekkó hlerarnir eru dregnir á um 20 gráðum sem ekki er hægt að gera með öðrum hlerum. Það sem veldur viðnámi á togi er skipið sjálft, togvírarnir, hlerarnir og trollið. Þó það sé misjafnt eftir veiðum þá standa hlerarnir almennt fyrir um 25% af viðnáminu. Við náum þessu viðnámi niður í 13% með Ekkó hlerunum,“ segir Smári.

Framleiðsla  á Ekkó hlerunum eftir pöntunum er hafin í samstarfi við vélsmiðjuna Héðinn og danska skipasmíðastöð. Fleiri framleiðslustaðir eru fyrirhugaðir.