þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla til veiða á nýju skipi í nóvember

Guðjón Guðmundsson
31. ágúst 2019 kl. 09:00

Páll Jónsson GK, nýtt 45 m langt línuskip Vísis, í skipasmíðastöðinni í Gdansk. Mynd/Kjartan Viðarsson.

Nýr Páll Jónsson GK á lokametrunum

Verið er að leggja lokahönd á smíði nýja línuskipsins Páls Jónssonar GK í Póllandi og áætlað er að fara í prufusiglingar í kringum miðjan september. Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi hf. í Grindavík sem lætur smíða skipið, segir að útgerðin fái skipið afhent í byrjun október og þá verði ráðist í það að setja niður fiskvinnsluvélar og línuvél.

Kjartan þekkir hvern krók og kima í skipasmíðastöðinni Alkor í Gdansk því þar hefur verið unnið að breytingum og nýsmíði á skipum Vísis í mörg ár. Fyrst var það Fjölnir GK á árinu 2015, Sighvatur GK sem var endurbyggður frá grunni árið 2018 og nú nýr Páll Jónsson.

Mikill virðisauki

„Þetta eru miklir heiðursmenn hjá Alkor og gott að eiga viðskipti við þá. Samskiptin hafa gengið mjög vel og allt staðist, jafnt tímasetningar og allt hvað fjármálum viðvíkur. Ég hef fylgst með smíðinni frá fyrsta degi og nú get ég sagt að skipið er stórglæsilegt,“ segir Kjartan.

Skipið er hannað af íslenska skipahönnunarstofunni Navis í samvinnu við Vísi. Allur rafbúnaður er sömuleiðis hannaður og framleiddur á Íslandi af Raftíðni. Siglingartæki eru fengin frá Skiparadíó í Grindavík. Virðisaukinn sem verður eftir á landinu við smíði skipsins hleypur á hundruðum milljóna króna, að sögn Kjartans.

Allt flokkað ofan í lest

Fiskvinnslukerfið um borð er smíðað af Skaganum 3X á Ísafirði og verður búnaðurinn fluttur út og settur í skipið ytra eins og fullkomið flokkunarkerfi sem er framleitt af Marel. Fiskurinn verður stærðar- og þyngdarmældur með sjálfvirkum hætti. Skammtari sér um að skammt nákvæmlega rétt þyngd í körin sem fara flokkuð og skráð ofan í lest. Skipið verður með línukerfi frá Mustad sem fengið er frá fyrirtækinu Ísfelli.  Stefnt er að því að setja þennan búnað í skipið um mánaðamótin september-október.

„Ég reikna með að við fáum skipið afhent um mánaðamótin  september-október og í framhaldinu klárum við það að setja búnaðinn í skipið með aðstoð frá skipasmíðastöðinni. Búast má við að skipið verði komið heim og farið á veiðar í byrjun nóvember.“

Nýr Páll Jónsson GK er 45 metra langur og 10,5 metrar á breidd. Útgerðarmynstrið verður hið sama og áður, þ.e.a.s. viku úthald á línu og komið heim með ferskan fisk í salt og ferskfiskútflutning. Aðbúnaður áhafnarinnar verður allur annar og betri með eins manns klefum.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um afdrif eldri Páls Jónssonar GK. Kjartan segir hann í góðu standi en vissulega sé hann orðinn dálítið aldurhniginn.