þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætluðu í karfa en eingöngu þorskur á ferðinni

6. febrúar 2019 kl. 12:00

Engey RE. (Mynd Kristján Maac)

Engey RE tók stuttan túr eftir viðgerð - kviknað hafði í spilmótor.

„Þetta var örstuttur túr. Bara tveir sólarhringar á veiðum enda var verið að stilla okkur af í löndunaráætluninni eftir óhappið á dögunum. Aflinn var hins vegar góður eða rúmlega 60 tonn og þetta var nánast eingöngu þorskur sem við fengum.“

Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Engey RE í viðtali á heimasíðu HB Granda, sem kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun. Óhappið, sem hann vísar til, var er kviknaði í spilmótor þegar skipið var að veiðum í Víkurál fyrir rúmum tíu dögum. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins og fór síðasta vika í viðgerð.

„Þar sem að okkur var ekki ætlaður langur tími að þessu sinni þá siglum við beint norður í Víkurál með það að markmiði að veiða eitthvað af karfa. Það var hins vegar bara þorskur á ferðinni. Við hófum veiðar í Víkurálnum eftir hádegi sl. laugardag en fórum svo norður eftir á Halann og enduðum svo veiðarnar út af Þverál eftir hádegi í gær. Þar var bara þorskur. Reyndar hafði orðið vart við ýsu og ufsa utarlega á Halanum dagana á undan en sú veiði var búin er við komum á svæðið,“ segir Friðleifur en að hans sögn voru tekin tíu hol í veiðiferðinni sem skiluðu rúmlega 60 tonna afla.