mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Af makríl, rauðátu og hafstraumum

Guðsteinn Bjarnason
12. desember 2018 kl. 13:00

Makríll og síld (Mynd: Óðinn Magnason)

Færeyskur haffræðingur segir hringstreymi sjávar úr Labradorhafi ráða miklu um aðstæður í hafinu umhverfis Ísland. Tilkoma makrílsins ráðist þó líklega frekar af hvarfi rauðátu norðan Færeyja.

Hjálmar Hátún, haffræðingur við færeysku Hafrannsóknarstofnunina, segir hringstreymi kaldra hafstrauma úr Labradorhafi til austurs, út á hafsvæðið fyrir sunnan Ísland og Grænland, hafa mikilvæg áhrif á hafið umhverfis Ísland þar sem fiskimið okkar eru.

Þetta hringstreymi, sem hann nefndi Subpolar Gyre, er misjafnlega öflugur og þær sveiflur ráða líklega miklu um loftslagið suður af Íslandi.

Þegar hann er með veikara móti komist hann ekki langt austur á bóginn heldur snýr við suður af Íslandi. Þegar aftur á móti styrkur hans eykst nær hann allt austur að Bretlandseyjum og torveldar þar með hlýstraumnum sunnan úr höfum, anga úr Golfstraumnum, að smeygja sér norður á bóginn á milli Íslands og Bretlands til Noregs.

„Við komumst að því að loftslagið á hafinu sunnan við Ísland ræðst mikið af því hve sterkir þessir tveir straumar eru,“ og á þá við kalda saltlitla strauminn vestan úr Labradorhafi og hlýja saltmikla strauminn sunnan úr höfum.

Þetta segir hann að geti meðal annars skýrt tilvist kalda blettsins fræga í hafinu suður af Íslandi. „Það var mikið bullað um hann í fjölmiðlum á sínum tíma, og einnig af hálfu vísindamanna,“ sagði hann.

Kolmunninn færði sig um set
Hjálmar kemst einnig að þeirri niðurstöðu að rekja megi aukna útbreiðslu kolmunna eftir 1995 til þess að þessi Norður-Atlantshafshringstraumur hafi tekið að veikjast.

Að sama skapi hafa sést merki þess að þessi þessi hringstraumur hafi verið að styrkjast á ný eftir 2014, eða nokkru áður en menn tóku eftir kalda blettinum suður af Íslandi og Grænlandi.

Breytingar á göngu makríls á síðustu árum rekur Hjálmar þó ekki til þessa hringstreymis.

„Makríllinn hrygnir vestur af Bretlandi og heldur síðan norður í Noregshaf en eftir 2006 tók hann að leita lengra til vestur, á Íslandsmið og allt vestur til Grænlands,“ sagði Hjálmar.

Hann telur ekki að það hafi verið breytingar á þessu hringstreymi sunnan Grænlands hafi hrakið hann vestur á bóginn eftir 2006, heldur hafi skortur á æti ráðið meiru um það.

Rauðátan hafi nefnilega horfið úr hafinu norðan við Færeyjar á árunum eftir 2003, en rauðátan er mikilvæg fæða fyrir makríl. Mikið af rauðátu sé hins vegar að finna í hafinu sunnan Grænlands og hún berist nær Íslandi þegar Subpolar-hringstreymið þar er sterkt.

Vill meira samstarf við sjómenn
„Loftslag er miklu meira en bara hitastig, því það er svo margt annað þarna niðri,“ sagði hann og fullyrðir að það sé fleira en bara hlýnun sem skýri breytingar á útbreiðslu makrílsins. Bæði saltinnihald og kísilinnihald hafsins skipti þar meðal annars máli.

Allt þetta þurfi að rannsaka sem allra mest og þar þurfa vísindin á aðstoð sjómanna að halda, sagði Hjálmar.

„Þið eruð að veiða á þessum svæðum,“ sagði hann og benti á að með nútíma tækni er mikið af gögnum fengið frá mælitækjum sem komið er fyrir á veiðarfærunum.

„Þessi gögn væri öll hægt að senda gegnum gervihnetti jafnóðum,“ og þar með gætu vísindamenn tekið við þeim og safnað saman. Með því myndi vitneskjan um ástandið í höfunum aukist verulega.

„Skipin sigla þarna um í leit að fiski“ hvort eð er.

Hjálmar flutti erindi sitt á málstofu um uppsjávarveiðar á tímum loftslagsbreytinga. Auk hans fluttu þar erindi þau Lisa Anne Libungan, Birkir Bárðarson og Anna Heiða Ólafsdóttir, en öll starfa þau að uppsjávarrannsóknum á Hafrannsóknarstofnun, og einnig flutti Cecilia Kaavik erindi en hún er að vinna að doktorsverkefni við Háskóla Íslands ásamt því að starfa á Hafró.

Dýrasvif lét undan síldinni
Margt fróðlegt kom fram í erindum þeirra allra, en hér skal minnst á erindi Lisu Anne sem skýrði frá rannsóknum á Austurdjúpi, hafsvæðinu austan við Ísland.

„Fegurðin við þetta hafsvæði er að við erum með þessa tvo strauma, við erum með þennan þennan Austur-Íslandsstraum sem er kaldur pólsjór og seltulítill og svo erum við með Irmingerstrauminn sem Hjálmar var að tala um sem er hlýr og seltumikill. Þessir tveir straumar eru að mætast austan Íslands,“ sagði hún.

Ennfremur segir hún sýnt hafa verið fram á, með sýnatöku út af Langanesi, að bæði hefur hitinn í hafinu og seltumagnið aukist síðustu tvo áratugina eða svo. Einnig hefur verið sýnt fram á að kísilmagn í hlýsjónum suður af Íslandi hefur minnkað. Þetta sama hefur einnig sést í mælingum við Noreg og í Barentshafi, og kísilmagnið hefur sömuleiðis mælst minna við Labrador.

Þetta segir hún skipta máli vegna þess að þörungar eru mjög háðir magni kísils í sjónum. Minnki hann hefur það veruleg áhrif á vöxt þörunganna.

„Þegar við minnkum kísilinn hér þá hefur það áhrif upp alla fæðukeðjuna,“ segir hún, „og þetta hefur líka klárlega áhrif á hafsvæðinu við Ísland.“

Við sjáum að þegar norsk-íslenska síldin er búin að færa sig inn á hafsvæðið eftir 2003 þá rýkur hún upp en á sama tíma erum við að sjá niðursveiflu í dýrasvifi. Þetta þótti okkur merkilegt.

Uppsjávartegundirnar makríll, síld og kolmunni. MYND/Hafrannsóknarstofnun