mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflahrun í júnímánuði

14. júlí 2008 kl. 12:17

Heildaraflinn í nýliðnum júní var nær helmingi minni en í sama mánuði í fyrra. Alls var landað 61.000 tonnum samanborið við 112.000 tonn áður.

Botnfiskaflinn dróst saman úr 43.000 tonnum í 28.000 tonn, þar af minnkaði þorskaflinn um rúmlega 3 þúsund tonn milli ára.

Af botnfisktegundum munar mest um hrun í afla úthafskarfa þar sem aflinn minnkaði úr tæpum 11.000 tonnum í júní 2007 í 3.000 tonn í nýliðnum júní.

Engum kolmunna var landað í júní 2008 en kolmunnaaflinn var rúmlega 34 þúsund tonn í júní í fyrra. Síldarafli í júní dróst saman milli ára eða úr 33.000 tonnum 2007 í 28.000 tonn í júní 2008. Nú veiddist talsvert af makríl með síldinni. Makríll varð áberandi í afla íslenskra skipa í júlí 2007.

Heildarafli ársins 2008 var í lok júní 614.000 tonn samanborið við 859.000 tonn á sama tímabili í fyrra.

Afli fiskveiðiársins 2007/2008 var í lok júní 958 þúsund tonn sem er 256 þúsund tonnum minni afli en á sama tíma í fyrra en þá var afli fiskveiðiársins 1.214 þúsund tonn.

Munar þar mest um 50 þúsund tonna samdrátt í botnfiskafla, 64 þúsund tonnum minni kolmunnaafla og 158 þúsund tonna samdrátt í loðnuafla frá fyrra fiskveiðiári. Síldaraflinn jókst hinsvegar lítillega milli fiskveiðiára.

Í lok nýliðins júní voru eftir 13% þorskaflaheimilda ársins. 30. júní 2007 var eftir að veiða 14,5% aflaheimilda í þorski. Í lok júní var eftir tæplega 18% af aflamarki fiskveiðiársins í ýsu en á sama tíma í fyrra voru eftir rúmlega 30% ýsuaflamarks.

Meiri upplýsingar um aflann í júní og stöðu aflaheimilda eru á vef Fiskistofu: Aflatölur Fiskistofu