mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflamarki úthlutað með nýjum hætti

11. ágúst 2011 kl. 16:38

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

1,33% skerðing til að stuðla að auknu jafnræði!

Allir handhafar aflahlutdeilda hafa nú fengið bréf frá Fiskistofu um nýja aðferð við úthlutun aflamarks. Breytingin felst í því að samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra er aflamark allra kvótabundinna tegunda skert um 1,33% miðað við leyfilegan heildarafla hverrar tegundar. Handhöfunum er svo gefinn kostur á að draga úr skerðingu annarra tegunda en þorsks, ýsu og steinbíts með því að láta aflamark í þorski, ýsu og/eða steinbít á móti, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Í úthlutunarbréfi Fiskistofu kemur fram hver upphafsúthlutun er, hver skerðingin er og hver úthlutun eftir skerðingu verður. Handhafar aflahlutdeilda geta svo breytt þessu með  aðferðinni sem að ofan er lýst fram til 22. ágúst. Það er gert rafrænt í upplýsingagátt Fiskistofu, Ugga, og fylgja leiðbeiningar þar að lútandi með bréfinu.

Nokkuð hefur borið á spurningum til Fiskistofu um tilganginn með þessu breytta fyrirkomulagi. Alþingi samþykkti breytinguna með lögum og í athugasemdum með lagafrumvarpinu má lesa að ætlunin sé að stuðla að auknu jafnræði þegar sá afli er dreginn af aflamarki sem renna á til ýmissa jöfnunaraðgerða og ívilnana, s.s. strandveiða, skel- og rækjubóta, línuívilnunar og byggðakvóta. Fram til þessa hefur aflamark sem ætlað er til nota í framangreindar aðgerðir eingöngu verið dregið frá þeim sem ráða yfir aflahlutdeild í  þorski, ýsu, ufsa og steinbít, en nú er dregið frá aflamarki í öllum tegundum. Aðilum er síðan gefinn kostur á að hafa áhrif á frádráttinn í einstökum tegundum öðrum en þorski ýsu og steinbít eins og að framan greinir.