mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti 153 milljarðar króna á árinu 2011

20. mars 2012 kl. 09:59

Trollið tekið á Vestmannaey VE. (Mynd: Kristinn Freyr Þórisson)

Verðmæti loðnuaflans jókst um 237%

 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 153 milljörðum króna á árinu 2011 samanborið við tæpa 133 milljarða á árinu 2010. Aflaverðmæti hefur því aukist um 20,3 milljarða króna eða 15,3% á milli ára, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofunni.

Aflaverðmæti botnfisks var tæpir 96 milljarðar króna og jókst um 2,4% frá fyrra ári þegar aflaverðmætið nam tæpum 94 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 46,4 milljarðar og jókst um 4% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 12 milljörðum og dróst saman um 21,3%, en verðmæti karfaaflans nam 15 milljörðum, sem er 24,7% aukning frá árinu 2010. Verðmæti ufsaaflans jókst um 7,8% milli ára í 9,1 milljarð.

Verðmæti flatfiskafla nam 10,3 milljörðum króna á árinu 2011 sem er 12,5% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 56,9% milli ára og nam 43,3 milljörðum. Stafar sú aukning að stærstum hluta af verðmætaaukningu makrílaflans, sem nam tæpum 18 milljörðum króna á árinu 2011 og jókst um 10 milljarða milli ára. Verðmæti loðnuaflans nam 8,9 milljörðum króna og jókst um 237% á milli ára.