laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti danskra skipa árið 2010 samsvaraði 65 milljörðum ISK

15. febrúar 2011 kl. 10:42

Danmörk

Meðalverð á þorski í Norðursjó samsvarar 542 krónum íslenskum á kíló

Aflaverðmæti danskra fiskiskipa nam um þremur milljörðum DKK (tæpum 65 milljörðum ISK) á árinu 2010 sem er 34% aukning frá árinu 2009. Í heild var landað 820.700 tonnum sem er 6% aukning frá árinu áður.

Aukið aflaverðmæti má að verulegu leyti rekja til mikillar hækkunar á verði á bræðslufiski milli áranna 2009 og 2010. Mikilvægustu tegundirnar í dönskum sjávarútvegi eru í þessari röð: sandsíli, þorskur, humar og síld.

Heildarverðmæti fisks til manneldis (fyrir utan bláskel) var 20% hærra en árið 2009 og skilaði þessi grein um 2 milljörðum DKK. Í tonnum talið var aukningin um 7%.

Heildaraflaverðmæti bræðsluveiða var 887 milljónir DKK í fyrra. Árið 2009 skilaði þessi grein 412 milljónum DKK þannig að aukning milli ára er 87%. Magnið jókst um 9% en meðalverðið jókst um 71%. Sandsílaveiðar skiluðu 472 milljónum króna sem er 78% aukning.  

Aflaverðmæti þorsks var 347 milljónir DKK 2010 sem er 21% aukning frá árinu áður. Magnið jókst um 13% og meðalverðið hækkaði um 8%. Þess má geta að meðalverð fyrir þorsk úr Eystrasalti var 9,75 DKK á kíló (208 ISK), meðalverð þorsks í Kattegat/Skagerak var 23,37 DKK á kíló (498 ISK) og meðalverð á þorski í Norðursjó var 25,43 DKK á kíló (542 ISK) .