laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti jókst um 15 milljarða árið 2015

31. mars 2016 kl. 10:24

Aflaverðmæti þorsks nam 61 milljarði króna í fyrra.

Aukning í botnfiski en verðmæti uppsjávarfisks stóð í stað.

Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2015 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 151 milljarði króna samanborið við ríflega 136 milljarða árið 2014. Aflaverðmæti úr sjó hefur því aukist um tæpa 15 milljarða eða sem nemur 11% á milli ára.

Aflaverðmæti botnfisks nam tæpum 103 milljörðum á árinu sem er aukning um 11,8% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur en aflaverðmæti þorsks á síðasta ári nam tæpum 61 milljarði króna sem er 14,9% hærra en árið 2014. Verðmæti flatfiskafla nam tæpum 10 milljörðum á síðasta ári sem er ríflega 39% aukning frá fyrra ári.

Verðmæti uppsjávarafla nam rúmum 34,6 milljörðum sem er 3,4% meira en árið 2014. Mikil aukning var í aflaverðmæti loðnu en að sama skapi dróst verðmæti síldar verulega saman á milli ára. Verðmæti skel- og krabbadýra var um 4 milljarðar á síðasta ári sem er 7,4% aukning frá árinu 2014.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.