þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti skoskra skipa rúmir 100 milljarðar

7. september 2015 kl. 10:00

Skoskt uppsjávarskip

Verðmæti jókst um 18% og aflinn um 31%

Á árinu 2014 lönduðu skosk skip alls 481 þúsund tonni af sjávarafla að verðmæti 514 milljónir punda (um 102 milljarðar ISK). Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Skotlands. 

Aflaverðmæti skoskra skipa jókst um 18% frá árinu 2013 og aflinn jókst um 31% í tonnum talið. Á bak við þessa veiði eru 2030 skosk skip og skoskir sjómenn voru 4.796 í árslok 2014. 

Aukning í aflaverðmæti er aðallega tilkomin vegna meiri veiði á uppsjávarfiski. Verðmæti uppsjávarfisks jókst um 42% og nam 220 milljónum punda árið 2014 (um 44 milljörðum ISK), verðmæti botnfisks var 143 milljónir punda (um 28 milljarðar ISK), verðmæti skelfisks var 151 milljón pund (tæpir 30 milljarðar ISK). 

Makríllinn skilaði mestum aflaverðmætum, eða um 38% af heildinni og nam 198 milljónum punda (39 milljörðum ISK).

Verðmæti makríls jókst um 52% milli áranna 2013 og 2014 en magnið jókst um 79%. Þannig lækkaði verð fyrir kíló af makríl úr 956 pundum á tonnið árið 2013 (um 189 þúsund ISK) niður í 813 pund árið 2014 (um 161 þúsund ISK).

Skosk skip lönduðu 175 þúsund tonnum í erlendum höfnum að verðmæti 127 milljónir punda (um 25 milljarðar ISK). Erlend löndun nam 36% af allri löndun skosku skipanna miðað við magn og um 25% miðað við verðmæti.