föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti Skota ekki hærra í tíu ár

17. apríl 2012 kl. 13:55

Makríllinn skilar þriðjungi verðmætanna, eða um 33 milljörðum ISK

Aflaverðmæti skoskra skipa á síðasta ári nam um 500 milljónum punda (um 102 milljörðum ISK) sem er um 15% hækkun frá árinu 2010, að því er fram kemur á vefnum Fishupdate.com.

Aukningin stafar einkum af meira aflaverðmæti makríls en hann skilaði skoskum útgerðum 164 milljónum punda í fyrra (um 33 milljörðum ISK). Rækjan hækkaði einnig í verði og gaf 83 milljónir punda (tæpa 17 milljarða ISK). Aflaverðmæti hvítfisks; þorsks, ýsu og fleiri tegunda, hefur verið nokkuð stöðugt. Flotinn hefur heldur minnkað þannig að færri skip standa nú að baki auknu verðmæti.

Haft er eftir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota, að þar sem makríll sé nærri þriðjungur af heildaraflaverðmæti skoskra skipa undirstriki það hvað þessi tegund sé mikilvæg fyrir skoskan sjávarútveg. Þess vegna yrði ESB að flýta undirbúningi viðskiptaþvingana seim eigi að koma í veg fyrir ofveiði Íslendinga og Færeyinga, eins og ráðherrann orðar það. Annars væri viðbúið að þetta verðmæti yrði ekki til staðar í jafnríkum mæli fyrir skoskan sjávarútvegi í framtíðinni.