þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti þorsks aukist mest

11. september 2012 kl. 11:22

Fiskibátur við Skotland.

Landanir í Bretlandi 2007 til 2011

Þorskur er sá hvítfiskur í Bretlandi sem aukið hefur aflaverðmæti sitt mest undanfarin fimm ár að sögn sjávarútvegsvefsins Fishupdate. Nemur aukningin 25% frá árinu 2007. 

Aflaverðmæti flestra fisktegunda hefur aukist í Bretlandi á sama tíma vegna aukinnar eftirspurnar og minnkandi kvóta. 

Löndun á þorski í Bretlandi árið 2007 nam 12.800 tonnum en 12.700 tonnum árið 2011 og er þá innflutningur á fiski frá Íslandi og Noregi ekki talinn með. Þrátt fyrir óbreytt aflamagn hefur verðmæti aflans aukist úr 21,7 milljónum punda í 27,5 milljón pund eða um 1,1 milljarð íslenskra króna. 

Aflaverðmæti ýsu hefur aftur á móti verið svipað þrátt fyrir að löndun hafi dregist saman úr 32.300 tonnum í 28.300 tonn vegna skerðingar á kvóta.

Aflaverðmæti skötusels í Bretlandi hefur einnig aukist umtalsvert á sama tímabil. Árið 2007 var landað 13.800 tonnum en 11.800 tonnum 2011. Á sama tíma fór aflaverðmætið úr 34,1 milljón punda í 39,5 milljón pund sem jafngildir rúmum milljarði íslenskra króna. 

Heildarafli jókst á tímabilinu 2007 til 2011 úr 140.500 tonnum í 151.300 tonn og verðmætin jukust úr 268 milljónum punda í 280 milljón pund. Aukningin jafngildir 2,3 milljörðum íslenskra króna.