mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmætið jókst um fjórðung milli ára

8. janúar 2016 kl. 12:24

Börkur NK fiskaði fyrir tvo milljarða á nýliðnu ári. (Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson)

Skip Síldarvinnslunnar og dótturfélaga fiskuðu fyrir 10,5 milljarða á nýliðnu ári.

Aflaverðmæti skipa Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar jókst um 23,8% á milli áranna 2014 og 2015 en aflinn jókst um 35% í tonnum talið og ræður þar aflaaukning uppsjávarskipa langmestu. Heildaraflaverðmætið var 8.523 milljónir króna á árinu 2014 en 10.548 milljónir króna á árinu 2015. 

Börkur NK skilaði mestu aflaverðmæti skipa SVN eða 2 milljörðum króna, frystitogarinn Barði var með 1,7 milljarða og Beitir 1,5 milljarða. 

Dótturfélög Síldarvinnslunnar eru Gullberg á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS og Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum sem gerir út togarana Bergey VE og Vestmannaey VE. Tvö síðastnefndu skipin fiskuðu fyrir rúman 1,1 milljarð króna hvort (CIF-verðmæti).

Frá þessu er skýrt á vef Síldarvinnslunnar og þar má sjá afla og aflaverðmæti einstakra skipa.