miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti fyrsta ársfjórðungs 21,8 milljarðar króna

16. júní 2008 kl. 09:05

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 21,8 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2008 samanborið við 25,2 milljarða á sama tímabili 2007.

Aflaverðmæti hefur dregist saman um 3,4 milljarða eða 13,5% milli ára. Aflaverðmæti marsmánaðar nam 10,0 milljörðum miðað við 9,6 milljarða í mars 2007.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þá var aflaverðmæti botnfisks í lok mars orðið 17,1 milljarðar sem er 6,2% samdráttur frá sama tímabili í fyrra þegar verðmæti botnfiskafla var 18,2 milljarðar.

Verðmæti þorskafla í mars var 4,4 milljarðar og dróst saman um 1,1%. Aflaverðmæti ýsu nam 1,4 milljörðum, jókst um 2,4%  og verðmæti ufsaaflans var 460 milljónir sem er svipað og í mars 2007.   Verðmæti flatfiskafla í mars nam 378 milljónum og jókst um 15,9%. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 22,7% og nam 2,1 milljörðum. Það sem af er ári er heildarverðmæti uppsjávarafla 3,8 milljarðar, samanborið við 5,9 milljarða árið 2007.

„Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam rúmum 1,7 milljörðum fyrstu þrjá mánuði ársins samanborið við rúma 4,2 milljarða á sama tíma árið 2007,“ segir á vef Hagstofu.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands, var 9,4 milljarðar króna, sem er samdráttur um 2,5 milljarða eða 21,2%.

Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 15,2%, var 3,8 milljarðar. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 2,6 milljörðum sem er 25,2% aukning.