sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti Hákons EA stefnir yfir tvo milljarða króna í ár

3. nóvember 2008 kl. 11:05

Vinnsluskip á uppsjávarveiðum hafa gert það mjög gott á þessu ári. Þannig komst aflaverðmæti Hákons EA upp í rétt um 300 milljónir króna tvo mánuði í röð í sumar, í júlí og ágúst.

Þegar skipið landar afla sínum úr yfirstandandi túr nú um mánamótin verður það búið að fiska fyrir 1800-1900 milljónir króna á árinu.

Ef haustvertíðin verður eitthvað í líkingu við það sem hún var í fyrra mun aflaverðmæti skipsins á árinu í heild verða vel yfir tvo milljarða króna, að því er Guðjón Jóhannsson skipstjóri upplýsir í viðtali við Fiskifréttir en hann er viðmælandi í dálkinum ,,karlinn í brúnni" í síðasta blaði.

Fram kemur í máli hans að frystitækin í skipinu hafi vart stöðvast á árinu frá því að loðnuveiðar hófust í janúarbyrjun en síðan tók við veiði á kolmunna og svo síld.

Guðjón gefur lítið fyrir skipstjórnina á þjóðarskútunni upp á síðkastið:

„Prófessor við Háskólann sagði eitt sinn í útvarpinu að framtíðarskipstjórarnir væru bankastjórar útrásarfyrirtækjanna. Mér sýnist að það hefði þurft að kenna þeim siglingarfræði svo þeir sigldu ekki upp á sker eins og þeir eru búnir að gera núna. Eitt er víst að við yrðum örugglega reknir ef við sigldum upp á svona sker,” segir Guðjón Jóhannsson. 

Sjá viðtalið í heild í Fiskifréttum.