föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afli erlendra skipa þrefaldaðist milli ára

21. desember 2011 kl. 08:00

Norskt loðnuskip á Fáskrúðsfirði (Mynd: Óðinn Magnason)

Alls veiddu erlend fiskiskip tæp 32 þús. tonn á Íslandsmiðum árið 2010

Heildarveiði erlendra skipa í íslenskri lögsögu á árinu 2010 nam 31.700 tonnum, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Til samanburðar má nefna að árið 2009 nam afli útlendinga hér við land 11.400 tonnum og árið þar á undan 58.600 tonnum.

Þessi mikla aflasveifla milli ára stafar fyrst og fremst af því að á árinu 2009 veiddu erlend skip enga loðnu við Ísland enda var aðeins gefinn út rannsóknakvóti það ár.

Færeyingar veiddu mest á Íslandsmiðum í fyrra eða um 19 þús. tonn, þar af nam síld og loðna samtals um 13 þús. tonnum. Afgangurinn var botnfiskur, þar af þorskur 1.428 tonn, keila 1.794 tonn og langa 1.095 tonn.

Norðmenn veiddu 6.800 tonn við Ísland á árinu 2010, þar af var loðna 6.300 tonn, keila 263 tonn og langa 168 tonn.

Grænlenska skipið Erika, sem er að hluta í eigu Síldarvinnslunnar, veiddi 5.000 tonn af loðnu.
Nánar um veiðar erlendra skipa síðustu árin á vef Hagstofu Íslands.