þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflinn í september: Meiri þorskur ? minni ýsa

14. október 2009 kl. 09:32

Fiskaflinn í september síðastliðnum, fyrsta mánuði nýs fiskveiðiárs, nam rúmlega 77.000 tonnum samanborið við 68.000 tonn í sama mánuði árið áður. Afli jókst bæði í botnfiski og uppsjávarfiski.

Botnfiskafli jókst um rúm 4.000 tonn frá september 2008 og nam tæpum 36.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 14.000 tonn, sem er um 4.000 tonnum meira en árið áður.

Ýsuaflinn nam rúmum 6.000 tonnum sem er um 1.600 tonnum minni afli en í september 2008. Ufsaaflinn stóð nokkurn veginn í stað á milli ára og nam tæpum 5.000 tonnum en rúm 5.000 tonn veiddust af karfa, sem er um 700 tonnum meiri afli en í september 2008.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 38.000 tonnum sem er um 5.000 tonna aukning frá því í september 2008. Síldaraflinn nam rúmum 32.000 tonnum og jókst um 5.500 tonn. Um 4.000 tonn veiddust af makríl, sem er tæpum 2.000 tonnum minni afli en í september 2008.

Flatfiskaflinn var 2.665 tonn í september og jókst um 747 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 907 tonnum samanborið við um 1.500 tonna afla í september 2008.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Hagstofu Íslands, HÉR