þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áfram óvissa um loðnu

10. október 2010 kl. 11:13

Mikil óvissa ríkir hvort og hve mikið verður leyft að veiða af loðnu á komandi vertíð. Lítið er vitað um 2008 árganginn sem ætlað er að bera uppi veiðina í vetur sem þriggja ára loðna, að því er Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur sagði í samtali við Fiskifréttir.

Töluvert fannst af loðnuseiðum í leiðangri í Íslandshafi árið 2008 en þau seiði skiluðu sér ekki nægilega vel sem eins árs loðna árið 2009. ,,Mælingin í ungloðnuleiðangri í fyrra var það lág að við treystum okkur ekki til að mæla með upphafskvóta fyrir komandi vertíð,“ sagði Sveinn.

Mælingar á veiðistofni loðnu er ekki að vænta fyrr en um og eftir áramótin þegar loðnan gengur til hrygningar. Ef nægilegt magn finnst verður tekin afstaða til hve mikið má veiða.

,,Væntanlega fáum við einhverja loðnuveiði en hversu mikil hún verður er ekki hægt að segja til um. Að svo stöddu höfum við ekki aðrar upplýsingar en þær að þessi árgangur virtist vera þokkalegur sem seiði en mældist illa sem ársgamall,“ sagði Sveinn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.